Óaðfinnanlegur Vestri á toppinn

Daði Berg Jónsson á fullri ferð í átt að marki …
Daði Berg Jónsson á fullri ferð í átt að marki ÍA í kvöld. Ljósmynd/Jón Gautur Hannesson

Vestri tyllti sér á topp Bestu deild­ar­inn­ar í knatt­spyrnu karla með því að vinna afar sterk­an sig­ur á ÍA, 2:0, í þriðju um­ferð deild­ar­inn­ar í Akra­nes­höll­inni í kvöld.

Vestri er tap­laus með sjö stig á toppi deild­ar­inn­ar og hef­ur aðeins fengið á sig eitt mark í fyrstu þrem­ur leikj­un­um. ÍA er í átt­unda sæti með þrjú stig og hef­ur tapað tveim­ur leikj­um í röð.

Sig­ur­inn var fylli­lega verðskuldaður enda spiluðu gest­irn­ir frá Vest­fjörðum næsta óaðfinn­an­lega. Skipu­lagið gekk full­kom­lega upp bæði varn­ar- og sókn­ar­lega og Skaga­menn máttu sín lít­ils þar sem Vestra­menn voru ofan á í öll­um sín­um aðgerðum stærst­an hluta leiks­ins.

Skaga­menn hófu þó leik­inn af krafti. Eft­ir aðeins tveggja mín­útna leik slapp Stein­ar Þor­steins­son einn í gegn hægra meg­in í víta­teign­um eft­ir send­ingu Jóns Gísla Ey­land Gísla­son­ar, Guy Smit var fljót­ur að koma út á móti og varði skot Stein­ars, hann fékk bolt­ann aft­ur og sendi fyr­ir eða reyndi annað skot en Gustav Kj­eld­sen bjargaði á marklínu.

Stuttu síðar, á sjöttu mín­útu, átti Johann­es Björn Vall fyr­ir­gjöf af vinstri kanti, Smit mis­reiknaði bolt­ann og Hlyn­ur Sæv­ar Jóns­son náði skalla hægra meg­in í víta­teign­um en hann fór rétt fram­hjá nær­stöng­inni.

Vestri gerði út um leik­inn í fyrri hálfleik

Eft­ir þetta áhlaup Skaga­manna komst Vestri bet­ur inn í leik­inn og skapaði hættu í skynd­isókn­um. Eft­ir eina slíka kom fyrsta mark leiks­ins á 28. mín­útu.

Vla­dimir Tufegdzic kom þá bolt­an­um á Daða Berg Jóns­son, hann renndi bolt­an­um inn fyr­ir á Diego Montiel sem tíma­setti hlaup sitt full­kom­lega, var einn á auðum sjó og rak bolt­ann inn í víta­teig vinstra meg­in og vippaði glæsi­lega yfir Árna Marinó Ein­ars­son í marki ÍA.

Bakvörðurinn Anton Kralj gerir sig líklegan til að senda fyrir …
Bakvörður­inn Ant­on Kra­lj ger­ir sig lík­leg­an til að senda fyr­ir mark Skaga­manna. Ljós­mynd/​Jón Gaut­ur Hann­es­son

Fimm mín­út­um fyr­ir leik­hlé tvö­faldaði Vestri for­yst­una. Upp­skrift­in af því marki var svipuð. Vestri sótti hratt, Fatai Gba­da­mosi vann skalla­bolt­ann á miðjum vall­ar­helm­ingi Skaga­manna, Montiel potaði bolt­an­um inn fyr­ir á Daða Berg sem hristi Oli­ver Stef­áns­son af sér, lék á Árna Marinó og lagði bolt­ann í autt markið, 2:0.

ÍA fékk kjörið tæki­færi til þess að minnka mun­inn í upp­bót­ar­tíma fyrri hálfleiks. Jón Gísli átti þá góða fyr­ir­gjöf af hægri kanti, Ómar Björn Stef­áns­son náði skalla af stuttu færi vinstra meg­in í víta­teign­um en Smit gerði mjög vel í að verja frá hon­um.

Staðan í leik­hléi var því 2:0, Vestra í vil.

ÍA tókst ekki að brjóta niður varn­ar­múr­inn

Í síðari hálfleik gerðist fátt markvert. Gest­irn­ir sátu til baka og vörðust fim­lega á meðan ÍA reyndi að finna ein­hverj­ar gluf­ur. Það gekk erfiðlega og tókst Skaga­mönn­um ekki að skapa sér nein opin færi fyrr en seint í leikn­um.

Mar­ko Var­dic fékk gott skot­færi á 80. mín­útu þegar bolt­inn datt fyr­ir hann hægra meg­in í víta­teign­um eft­ir fyr­ir­gjöf Oli­vers sem var skölluð til hliðar. Var­dic þrumaði að marki en Smit gerði vel í að verja yfir markið.

Einni mín­útu fyr­ir leiks­lok gaf Jón Gísli fyr­ir af hægri kant­in­um, fann þar Hlyn Sæv­ar sem náði skalla en hann var kraft­lít­ill og Smit varði nokkuð þægi­lega.

Hlyn­ur Sæv­ar átti eina skalla­tilraun til viðbót­ar seint í upp­bót­ar­tíma en skallaði þá yfir markið eft­ir fyr­ir­gjöf Vall úr auka­spyrnu af vinstri kant­in­um.

Fleira gerðist ekki í leikn­um og Vestri vann glæsi­leg­an sig­ur.

ÍA 0:2 Vestri opna loka
Augna­blik — sæki gögn...
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert