Vestri tyllti sér á topp Bestu deildarinnar í knattspyrnu karla með því að vinna afar sterkan sigur á ÍA, 2:0, í þriðju umferð deildarinnar í Akraneshöllinni í kvöld.
Vestri er taplaus með sjö stig á toppi deildarinnar og hefur aðeins fengið á sig eitt mark í fyrstu þremur leikjunum. ÍA er í áttunda sæti með þrjú stig og hefur tapað tveimur leikjum í röð.
Sigurinn var fyllilega verðskuldaður enda spiluðu gestirnir frá Vestfjörðum næsta óaðfinnanlega. Skipulagið gekk fullkomlega upp bæði varnar- og sóknarlega og Skagamenn máttu sín lítils þar sem Vestramenn voru ofan á í öllum sínum aðgerðum stærstan hluta leiksins.
Skagamenn hófu þó leikinn af krafti. Eftir aðeins tveggja mínútna leik slapp Steinar Þorsteinsson einn í gegn hægra megin í vítateignum eftir sendingu Jóns Gísla Eyland Gíslasonar, Guy Smit var fljótur að koma út á móti og varði skot Steinars, hann fékk boltann aftur og sendi fyrir eða reyndi annað skot en Gustav Kjeldsen bjargaði á marklínu.
Stuttu síðar, á sjöttu mínútu, átti Johannes Björn Vall fyrirgjöf af vinstri kanti, Smit misreiknaði boltann og Hlynur Sævar Jónsson náði skalla hægra megin í vítateignum en hann fór rétt framhjá nærstönginni.
Eftir þetta áhlaup Skagamanna komst Vestri betur inn í leikinn og skapaði hættu í skyndisóknum. Eftir eina slíka kom fyrsta mark leiksins á 28. mínútu.
Vladimir Tufegdzic kom þá boltanum á Daða Berg Jónsson, hann renndi boltanum inn fyrir á Diego Montiel sem tímasetti hlaup sitt fullkomlega, var einn á auðum sjó og rak boltann inn í vítateig vinstra megin og vippaði glæsilega yfir Árna Marinó Einarsson í marki ÍA.
Fimm mínútum fyrir leikhlé tvöfaldaði Vestri forystuna. Uppskriftin af því marki var svipuð. Vestri sótti hratt, Fatai Gbadamosi vann skallaboltann á miðjum vallarhelmingi Skagamanna, Montiel potaði boltanum inn fyrir á Daða Berg sem hristi Oliver Stefánsson af sér, lék á Árna Marinó og lagði boltann í autt markið, 2:0.
ÍA fékk kjörið tækifæri til þess að minnka muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Jón Gísli átti þá góða fyrirgjöf af hægri kanti, Ómar Björn Stefánsson náði skalla af stuttu færi vinstra megin í vítateignum en Smit gerði mjög vel í að verja frá honum.
Staðan í leikhléi var því 2:0, Vestra í vil.
Í síðari hálfleik gerðist fátt markvert. Gestirnir sátu til baka og vörðust fimlega á meðan ÍA reyndi að finna einhverjar glufur. Það gekk erfiðlega og tókst Skagamönnum ekki að skapa sér nein opin færi fyrr en seint í leiknum.
Marko Vardic fékk gott skotfæri á 80. mínútu þegar boltinn datt fyrir hann hægra megin í vítateignum eftir fyrirgjöf Olivers sem var skölluð til hliðar. Vardic þrumaði að marki en Smit gerði vel í að verja yfir markið.
Einni mínútu fyrir leikslok gaf Jón Gísli fyrir af hægri kantinum, fann þar Hlyn Sævar sem náði skalla en hann var kraftlítill og Smit varði nokkuð þægilega.
Hlynur Sævar átti eina skallatilraun til viðbótar seint í uppbótartíma en skallaði þá yfir markið eftir fyrirgjöf Vall úr aukaspyrnu af vinstri kantinum.
Fleira gerðist ekki í leiknum og Vestri vann glæsilegan sigur.