„Það er fúlt að fá bara eitt stig úr þessum leik úr því sem komið var, við vorum einum fleiri í rúman hálftíma. Þeir spiluðu í rauninni handboltavörn og bara hrós á FH að halda þessu," sagði Gyrðir Hrafn Guðbrandsson, varnarmaður KR.
Hann kom inn á sem varamaður eftir korters leik í 2:2 jafntefli sinna manna gegn FH í Kaplakrika í 3. umferð Bestu deildarinnar í kvöld.
Heimamenn fengu rautt spjald þegar skammt var liðið á síðari hálfleik í stöðunni 1:1 en bæði lið skoruðu sitthvort markið eftir að FH urðu manni færri. KR-ingar freistuðu þess að sækja sinn fyrsta sigur og voru mikið með boltann við vítateig FH en vörn heimamanna stóð þétt saman.
„Við erum svekktir að fara heim bara með eitt stig en það er alltaf erfitt að koma í Krikann enda þekki ég þennan völl vel eftir að hafa spilað með FH."
Gyrðir Hrafn lék með FH áður en hann gekk til liðs við KR síðasta sumar og var ánægður með grasið og sérstaklega starfsmenn FH.
„Ég vil líka hrósa starfsmönnum FH fyrir völlinn, hann er mjög flottur miðað við árstíma, blautur og vel hægt að spila fótbolta."
KR er, eins margir vita, að skipta um undirlag á sínum heimavelli að Meistaravöllum og þá verður gervigras lagt á aðalvellinum. Vesturbæjarfélagið hefur verið að spila sína heimaleiki á gervigrasvelli Þróttara og hefur kunnað best við sig á gervigrasi og því spratt smá umræðu í aðdraganda þessa leiks um hvernig liðið myndi tækla þetta verkefni.
„Við ákváðum að láta völlinn ekki hafa áhrif á okkur. Við komum hingað til að spila okkar bolta og vera trúir því sem við stöndum fyrir. Þannig að við ætluðum ekki að láta völlinn trufla okkur, hann var góður, smá hólóttur en það er ekki hægt að kenna vellinum um eitt eða neitt. Við hefðum átt að taka þrjú stig," sagði Gyrðir Hrafn að lokum í samtali við mbl.is.