„Þetta var alls ekki góð frammistaða í kvöld, því miður,“ sagði Ívar Örn Árnason fyrirliði KA í samtali við mbl.is eftir að liðið tapaði fyrir Val, 3:1, á útivelli í 3. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta í kvöld.
„Það vantar okkar einkenni og við erum að finna okkur. Við erum með nýtt lið og erum nýbyrjaðir að spila saman. Við erum að komast að því hvort við ætlum að liggja aðeins meira eða reyna að vera með boltann. Við þurfum að fara í naflaskoðun og komast að því hvernig við viljum spila.
Við höfum undanfarin ár alltaf getað fallið á þau gildi sem við höfum. Á þessu tímabili erum við ekki að finna okkur. Það geta allir horft í spegilinn og gert meira, hlaupið meira og gert þetta betur,“ sagði Ívar hreinskilinn.
Valur komst í 3:0 en KA minnkaði muninn og ógnaði nokkrum sinnum eftir það. Þrátt fyrir það var Ívar ekki sáttur.
„Fótboltaleikur er 90 mínútur og liðin skiptast á að stjórna leiknum. Mér fannst við samt alltaf seinir. Við þurfum að fara yfir okkar leik. Það er ekki verið að spila okkur sundur og saman heldur eru þetta þrír langir boltar þar sem við missum mennina bak við okkur. Þetta er einbeitingarleysi og reynsluleysi sömuleiðis,“ sagði Ívar.