„Við erum bara svekktir að fá ekki meira,“ sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, í viðtali við mbl.is eftir 2:1-tap sinna manna gegn Breiðabliki í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Leikurinn stefndi í jafntefli þar til á fjórðu mínútu í uppbótartíma þegar Höskuldur Gunnlaugsson skoraði sigurmark Breiðabliks.
„Bæði lið gátu tekið þetta og þeir kannski áttu þyngri sóknarkafla en við í seinni hluta fyrri hálfleiks og seinni hluta seinni hálfleiks. En mér fannst við samt eiga góðar stöður. Við hefðum viljað fjölga spilköflunum okkar en það er erfitt, bæði lið pressa stíft, maður á mann,“ sagði Jökull í samtali við mbl.is eftir leik.
Stjarnan kom af krafti inn í seinni hálfleikinn og jafnaði metin á 50. mínútu eftir mark frá Örvari Eggertssyni.
„Við komum aðeins hugrakkari inn í seinni. Mér fannst við aðeins hræddir við að fá boltann og mér fannst ekki alveg nógu mikil hreyfing á mönnum, fáir möguleikar. Við löguðum það aðeins þannig mér fannst það miklu betra í seinni,“ sagði Jökull.
Er eitthvað jákvætt sem þú getur tekið úr þessum leik?
„Já, mjög margt en líka margt sem við viljum gera betur. Við munum tæta hvort tveggja í okkur fyrir næsta leik og mæta brattir í það.“
Óli Valur Ómarsson, leikmaður Breiðabliks, mætti sínum gömlu félögum í Stjörnunni í dag og skapaði mikla hættu í sóknarleik Blika. Hann gekk til liðs við Breiðablik fyrir tímabilið.
„Hann er frábær leikmaður og við vissum alltaf að hann myndi vera erfiður. Við vorum alveg tilbúnir að taka því en við ætluðum svo sem ekki að gera eitthvað meira úr því. Við spiluðum með þrjá aftast og vissum að leikur þeirra gengi út á að koma boltanum út á hann og svo á hann að keyra.
Við ákváðum að láta manninn díla við það og aðrir vera klárir þegar hann fer framhjá. Hann var alltaf að fara að komast framhjá manni sínum í einhver skipti í leiknum en mér fannst heilt yfir aðrir klára sitt fyrir aftan. Hann er frábær og ég vona að honum gangi vel.“
Leikurinn var fyrsti tapleikur Stjörnunnar á tímabilinu en liðið er með sex stig eftir þrjá leiki í deildinni.
„Mér finnst við aðeins vera að komast í gang. Fyrstu leikirnir voru ekkert spes hjá okkur. Mér finnst þessi töluvert betri og bikarleikurinn betri, þó að það væri gegn 1. deildarliði þá var takturinn í okkur betri og við erum að ná takti í spilið. Ég get bara ekki beðið eftir næsta leik,“ sagði Jökull að lokum.