Eyjamenn tóku á móti Fram í Bestu deild karla á Þórsvelli í Vestmannaeyjum í dag. Leikurinn endaði með 3:1 sigri heimamanna í ÍBV.
Eftir leikinn eru heimamenn í ÍBV með 4 stig í 6. sæti fyrir leiki kvöldsins. Fram eru í áttunda sæti, enn með 3 stig.
Bæði lið komu eflaust kokhraust inn í leikinn. Eyjamenn áttu frábæran leik í bikarnum gegn Víkingum um síðastliðna helgi og Fram unnu stórkostlegan endurkomusigur á Íslandsmeisturum Breiðabliks í síðustu umferð í Bestu deildinni.
Aðstæður á Þórsvelli voru krefjandi í dag en það gustaði vel úr austri. Leikurinn einkenndist því að miklu leyti af beinskeittum sóknum og liðin voru síst að reyna að halda boltanum af einhverju viti.
Eftir 10 mínútna leik átti Oliver Hreiðarsson frábæran sprett upp hægri kantinn og setti boltann fast fyrir utarlega í teiginn. Boltinn barst til Bjarka Björns sem lagði hann stutt og á vinstri fótinn á Omari Sowe sem brást ekki bogalistin. Hann lagði hann snyrtilega í hornið fjær þar sem Viktor Freyr kom engum vörnum við. 1:0 fyrir ÍBV.
Um það bil korteri seinna tvöfölduðu heimamenn forystuna. Þá átti Oliver frábæra fyrirgjöf beint á kollinn á Bjarka Birni sem gerði virkilega vel að stýra boltanum í markið. 2:0 fyrir ÍBV og Fram lítið með í leiknum.
Á 40. mínútu átti Tibbling frábæra fyrirgjöf inn í teig Eyjamanna utarlega frá kantinum. Þar mætti Kennie Chopart á fjarstöngina og stangaði hann inn. 2:1 fyrir ÍBV og Fram komnir inn í leikinn aftur.
Stuttu eftir mark Framara áttu bæði lið stórhættuleg færi en tókst ekki að nýta þau. Fleira eftirtektarvert gerðist ekki í fyrri hálfleik og staðan því 2:1 í hálfleik.
Í síðari hálfleik jók vindurinn verulega og var erfitt að spila knattspyrnu. Eftir hálfdapran fótbolta tvöfölduðu Eyjamenn aftur forystuna á 80. mínútu. Þá negldi Alex Freyr boltanum þvert yfir völlinn og Oliver fann sig einan gegn Viktori Frey markmanni Framara. Oliver kláraði vel í erfiðum aðstæðum, 3:1 fyrir heimamönnum í ÍBV.
Lokaniðurstaða sanngjarn 3:1-sigur ÍBV.