Framarar heimsóttu ÍBV í Bestu deild karla í dag. Aðstæður voru hryllilegar hvað veðurfar varðaði en mikill vindur setti mark sitt á leikinn.
ÍBV vann leikinn 3:1. Guðmundur Magnússon, sóknarmaður og fyrirliði Framara, stóð vaktina í framlínu þeirra í dag. Hann var að vonum svekktur með úrslitin og dró ekkert undan, aðspurður um aðstæðurnar á Þórsvelli í dag.
„Þetta var þannig leikur að þetta gat dottið hvoru megin sem var. Þeir gerðu bara vel í sínu uppleggi. Þetta var allavega leiðinlegasti fótboltaleikur sem ég hef spilað á ævinni. Það er alveg á hreinu.
Ég ætla ekki að fara væla yfir aðstæðum, þótt þetta hafi verið leiðinlegt. En mér finnst, sama hvernig úrslitin fara, að það eigi ekki að bjóða upp á þetta í efstu deild.“
Framarar áttu frábæran endurkomusigur í síðustu umferð gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í síðustu umferð. Guðmundur horfir björtum augum á tímabilið hjá Fram.
„Þegar við fáum að spila alvöru fótbolta, þá er ég mjög bjartsýnn,“ sagði Guðmundur að lokum.