Eyjamenn tóku á móti Fram í Bestu deild karla á Þórsvelli í Vestmannaeyjum í dag. Leikið var við erfiðar aðstæður, en heimamenn stóðu uppi sem sigurvegarar með 3:1 sigri.
Varnarmaðurinn Sigurður Arnar Magnússon var að vonum kátur með sigurinn eftir strembinn leik við Fram og veðurguðina.
„Þetta var iðnaðarsigur að okkar skapi. Okkar veður á okkar velli og mér fannst við bara fagmannlegir og létum þetta [aðstæður] ekki fara í taugarnar á okkur. Eðlilega, við erum vanir þessu. Við létum þá pirra sig á þessu og tókum þrjú stig í dag,“ sagði Sigurður.
Eins og hefur komið fram var leikið á Þórsvelli, en þetta var í fyrsta skipti í yfir 20 ár sem ÍBV leikur á Þórsvelli í Íslandsmóti. Verið er að setja gervigras á Hásteinsvöll og var því leikið á Þórsvelli til bráðabirgða í dag. Eyjamenn unnu einnig síðasta leik á Þórsvelli sem var gegn Víkingum í bikarnum.
„Mér líður alltaf vel að spila á grasi. Mér finnst skemmtilegra að spila fótbolta á grasi heldur en gervigrasi. Það er bara mín persónulega skoðun. Mín vegna mættum við vera á Þórsvelli eins lengi og þeir vilja. En svo tekur við nýtt kafli þar sem við förum á gervigrasið og höldum áfram að sækja sigra þar. Gerum þetta að vígi þar líka,“ sagði Sigurður Arnar, aðspurður að því hvort liði ÍBV líði vel á Þórsvelli.
Fyrir tímabilið var mat flestra að Eyjamenn myndu hafna í neðsta sætinu þegar liðin myndu telja stigin úr pokunum sínum í haust. Eyjamenn voru hinsvegar óheppnir að sigra ekki Aftureldingu á útivelli í síðustu umferð ásamt því að sigra Víkinga í bikarnum og Fram á heimavelli.
Sigurður Arnar þóttist skilja hrakfallaspár spámanna fyrir mót en var þó eðlilega ekki sammála þeim.
„Þetta hefur kannski á einhverju leyti átt rétt á sér. Við vorum ekkert frábærir á undirbúningstímabilinu í vetur. En svo er þetta kannski svolítið eins og Láki hefur verið að tala um og eins og Alex [Freyr] sagði eftir síðasta leik. Þetta er bara að smella. Liðið var að verða tilbúið undir lokin á undirbúningstímabilinu og við vorum kannski lengi að spila okkur saman, þannig að einhverju leyti átti þetta rétt á sér.“
„Fólk þarf kannski líka að gera sér grein fyrir að þetta er ÍBV. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við lítum illa út á undirbúningstímabili. Ef við tölum um síðasta tímabil þá fannst mér við yfirburðalið í Lengjudeildinni. Við unnum hana tæpt, en tölurnar bak við þetta allt eins og skot á mark og xG og það allt, sýna að þá vorum við yfirburðalið í Lengjudeildinni í fyrra. Þannig ég veit að við erum tilbúnir að berjast í þessari deild,“ sagði Sigurður Arnar að lokum.