Þetta er bara að smella

Oliver Heiðarsson reynir skot að marki Fram í leiknum í …
Oliver Heiðarsson reynir skot að marki Fram í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyja­menn tóku á móti Fram í Bestu deild karla á Þór­svelli í Vest­manna­eyj­um í dag. Leikið var við erfiðar aðstæður, en heima­menn stóðu uppi sem sig­ur­veg­ar­ar með 3:1 sigri.

Varn­ar­maður­inn Sig­urður Arn­ar Magnús­son var að von­um kát­ur með sig­ur­inn eft­ir stremb­inn leik við Fram og veðurguðina.

„Þetta var iðnaðarsig­ur að okk­ar skapi. Okk­ar veður á okk­ar velli og mér fannst við bara fag­mann­leg­ir og lét­um þetta [aðstæður] ekki fara í taug­arn­ar á okk­ur. Eðli­lega, við erum van­ir þessu. Við lét­um þá pirra sig á þessu og tók­um þrjú stig í dag,“ sagði Sig­urður.

Eins og hef­ur komið fram var leikið á Þór­svelli, en þetta var í fyrsta skipti í yfir 20 ár sem ÍBV leik­ur á Þór­svelli í Íslands­móti. Verið er að setja gervi­gras á Há­steinsvöll og var því leikið á Þór­svelli til bráðabirgða í dag. Eyja­menn unnu einnig síðasta leik á Þór­svelli sem var gegn Vík­ing­um í bik­arn­um.

„Mér líður alltaf vel að spila á grasi. Mér finnst skemmti­legra að spila fót­bolta á grasi held­ur en gervi­grasi. Það er bara mín per­sónu­lega skoðun. Mín vegna mætt­um við vera á Þór­svelli eins lengi og þeir vilja. En svo tek­ur við nýtt kafli þar sem við för­um á gervi­grasið og höld­um áfram að sækja sigra þar. Ger­um þetta að vígi þar líka,“ sagði Sig­urður Arn­ar, aðspurður að því hvort liði ÍBV líði vel á Þór­svelli.

Fyr­ir tíma­bilið var mat flestra að Eyja­menn myndu hafna í neðsta sæt­inu þegar liðin myndu telja stig­in úr pok­un­um sín­um í haust. Eyja­menn voru hins­veg­ar óheppn­ir að sigra ekki Aft­ur­eld­ingu á úti­velli í síðustu um­ferð ásamt því að sigra Vík­inga í bik­arn­um og Fram á heima­velli.

Sig­urður Arn­ar þótt­ist skilja hrak­falla­spár spá­manna fyr­ir mót en var þó eðli­lega ekki sam­mála þeim.

Sigurður Arnar Magnússon í leik með ÍBV á Hásteinsvelli.
Sig­urður Arn­ar Magnús­son í leik með ÍBV á Há­steinsvelli. Ljós­mynd/​Sig­fús Gunn­ar

„Þetta hef­ur kannski á ein­hverju leyti átt rétt á sér. Við vor­um ekk­ert frá­bær­ir á und­ir­bún­ings­tíma­bil­inu í vet­ur. En svo er þetta kannski svo­lítið eins og Láki hef­ur verið að tala um og eins og Alex [Freyr] sagði eft­ir síðasta leik. Þetta er bara að smella. Liðið var að verða til­búið und­ir lok­in á und­ir­bún­ings­tíma­bil­inu og við vor­um kannski lengi að spila okk­ur sam­an, þannig að ein­hverju leyti átti þetta rétt á sér.“

„Fólk þarf kannski líka að gera sér grein fyr­ir að þetta er ÍBV. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem við lít­um illa út á und­ir­bún­ings­tíma­bili. Ef við töl­um um síðasta tíma­bil þá fannst mér við yf­ir­burðalið í Lengju­deild­inni. Við unn­um hana tæpt, en töl­urn­ar bak við þetta allt eins og skot á mark og xG og það allt, sýna að þá vor­um við yf­ir­burðalið í Lengju­deild­inni í fyrra. Þannig ég veit að við erum til­bún­ir að berj­ast í þess­ari deild,“ sagði Sig­urður Arn­ar að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert