Ákveðið stjórnleysi á þessu

Davíð Smári Lamude á hliðarlínunni í dag.
Davíð Smári Lamude á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Vestri og Breiðablik mætt­ust í 4. um­ferð Bestu deild­ar karla í fót­bolta á Ísaf­irði í dag. Vestri var á toppn­um með sjö stig og Breiðablik er í þriðja sæti með sex stig fyr­ir leik­inn. Það var frá­bært veður á Ísaf­irði í dag, smá gola og um 7 stiga hiti.

Davíð Smári þjálf­ari Vestra mætti í viðtal eft­ir leik og hafði þetta að segja um leik­inn.

„Gríðal­ega, gríðal­ega svekkj­andi tap. Spila­mennsk­an hefði getað verið betri, sér­stak­lega í fyrri hálfleik. Við vor­um ná­lægt því að fá dauðafæri, sleppa í gegn en þeir ná ein­hvern veg­inn alltaf að vera fyr­ir. Ég er líka nokkuð viss um að við átt­um að fá víti í fyrri hálfleik og þá er þetta bara game over fyr­ir Breiðablik.“

Þið byrjið seinni hálfleik­inn vel og kom­ist í ágæt­is stöður en svo fjar­ar dá­lítið und­an þessu. Er það ekki eitt­hvað sem má bæta?

„Það er nú bara þannig að við héld­um ekki nægi­lega vel í bolt­ann á löng­um köfl­um í leikn­um og ork­an fer öll í það að verj­ast alltof lengi. Þá koma upp augna­blik sem við erum slapp­ir, færsl­urn­ar okk­ar hæg­ar, náum ekki að skila okk­ur í stöðu og náum ekki að klukka þá. Gegn liði eins og Breiðablik er það gríðarlega erfitt“.

Það var mikið spennu­stig niðri á hliðarlínu í leikn­um í dag. Var eitt­hvað sér­stakt í leikn­um sem olli því?

„Það var ákveðið stjórn­leysi á þess­um leik að mér fannst hjá þeim sem áttu að stjórna leikn­um. Það fór illa í báða bekk­ina, skrýtn­ar ákv­arðanir, dóm­ar­inn hjálpaði ekki, mátti lítið segja og var fljót­ur að segja mönn­um að hætta að tala. Það veld­ur oft titr­ingi og pirr­ingi og mér fannst þetta ekki vera leik­ur sem átti að vera til staðar. Það átti ekki að vera erfitt að dæma leik­inn en það var greini­lega, þetta víti und­ir lok­in var al­gjört grin.“

Nú eru það ÍBV og Aft­ur­eld­ing í næstu tveim­ur leikj­um, hvernig líst þér svo á fram­haldið?

„Við fór­um klár­lega bjart­sýn­ir inn í þessa leiki. Ég ætla að segja það hér og nú að við erum gríðarlega svekkt­ir að hafa tapað hérna fyr­ir Íslands­meist­ur­un­um og mér finnst það segja hell­ing um liðið.

Ég er ofboðslega stolt­ur af þess­um strák­um, þeir lögðu 110% í leik­inn og auðvitað eru litl­ir hlut­ir sem við þurf­um að laga og gera bet­ur. Það sem strák­arn­ir eru að gefa liðinu, Vestra­sam­fé­lag­inu og fólk­inu sem býr hérna á svæðinu. Ef við ger­um það áfram er ég klár­lega bjart­sýnn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert