Vestri og Breiðablik mættust í 4. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Ísafirði í dag. Vestri var á toppnum með sjö stig og Breiðablik er í þriðja sæti með sex stig fyrir leikinn. Það var frábært veður á Ísafirði í dag, smá gola og um 7 stiga hiti.
Davíð Smári þjálfari Vestra mætti í viðtal eftir leik og hafði þetta að segja um leikinn.
„Gríðalega, gríðalega svekkjandi tap. Spilamennskan hefði getað verið betri, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við vorum nálægt því að fá dauðafæri, sleppa í gegn en þeir ná einhvern veginn alltaf að vera fyrir. Ég er líka nokkuð viss um að við áttum að fá víti í fyrri hálfleik og þá er þetta bara game over fyrir Breiðablik.“
Þið byrjið seinni hálfleikinn vel og komist í ágætis stöður en svo fjarar dálítið undan þessu. Er það ekki eitthvað sem má bæta?
„Það er nú bara þannig að við héldum ekki nægilega vel í boltann á löngum köflum í leiknum og orkan fer öll í það að verjast alltof lengi. Þá koma upp augnablik sem við erum slappir, færslurnar okkar hægar, náum ekki að skila okkur í stöðu og náum ekki að klukka þá. Gegn liði eins og Breiðablik er það gríðarlega erfitt“.
Það var mikið spennustig niðri á hliðarlínu í leiknum í dag. Var eitthvað sérstakt í leiknum sem olli því?
„Það var ákveðið stjórnleysi á þessum leik að mér fannst hjá þeim sem áttu að stjórna leiknum. Það fór illa í báða bekkina, skrýtnar ákvarðanir, dómarinn hjálpaði ekki, mátti lítið segja og var fljótur að segja mönnum að hætta að tala. Það veldur oft titringi og pirringi og mér fannst þetta ekki vera leikur sem átti að vera til staðar. Það átti ekki að vera erfitt að dæma leikinn en það var greinilega, þetta víti undir lokin var algjört grin.“
Nú eru það ÍBV og Afturelding í næstu tveimur leikjum, hvernig líst þér svo á framhaldið?
„Við fórum klárlega bjartsýnir inn í þessa leiki. Ég ætla að segja það hér og nú að við erum gríðarlega svekktir að hafa tapað hérna fyrir Íslandsmeisturunum og mér finnst það segja helling um liðið.
Ég er ofboðslega stoltur af þessum strákum, þeir lögðu 110% í leikinn og auðvitað eru litlir hlutir sem við þurfum að laga og gera betur. Það sem strákarnir eru að gefa liðinu, Vestrasamfélaginu og fólkinu sem býr hérna á svæðinu. Ef við gerum það áfram er ég klárlega bjartsýnn.“