Stjarnan sigraði Tindastól 2:1 í þriðju umferð í Bestu deild kvenna í knattspyrnu eftir frábærar lokamínútur hjá gestunum á Sauðárkróki í dag.
Þetta eru fyrstu stig Stjörnunnar í deildinni í ár en liðið var með núll stig og mínus níu í markatölu fyrir leikinn í dag. Tindastóll er með þrjú stig.
Leikurinn var fjörugur til að byrja með. Heimakonur settu boltann í netið eftir aðeins fimm mínútur en það var brotið á Önnu Maríu Baldursdóttir, fyrirliða Stjörnunnar, í uppbyggingu marksins og það stóð ekki. Þetta var fyrsti leikur Önnu Maríu á tímabilinu en Stjarnan saknaði hennar augljóslega í fyrstu tveimur leikjum liðsins en Stjarnan fékk samtals tólf mörk á sig í fyrstu tveimur leikjum liðsins en aðeins eitt í dag.
Stjarnan lá í sókn um tíma í fyrri hálfleik og fékk nokkur fín færi. Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir fékk fínt færi eftir stundarfjórðung þegar hún kom inn á völlinn og skaut rétt fram hjá.
Á 42. mínútu skoraði Makala Woods mark Tindastóls, gegn gangi leiksins, eftir flotta sendingu upp völlinn frá Elísu Bríet Björnsdóttir. Makala fékk boltann, tók snúning, setti varnarmann á rassinn og skaut í vinstra hornið. Staðan því 1:0 í hálfleik fyrir heimakonum.
Seinni hálfleikur var mjög rólegur og Stjarnan gerði sig ekki líklega til þess að fá stig úr leiknum þar til á 88. mínútu þegar varamaðurinn Jana Sól Valdimarsdóttir skoraði jöfnunarmark Stjörnunnar.
Jessica Ayers stal síðan sigrinum fyrir Stjörnuna á lokamínútu uppbótartímans þegar hún setti boltann í fyrstu snertingu í markið eftir fyrirgjöf frá varamanninum Gyðu Kristíni Gunnarsdóttir.
Heimakonur fengu eina sókn til að reyna að jafna en Vera Varis varði vel og Stjarnan fagnaði sigrinum.