Dramatískur sigur Stjörnunnar

Stjörnukonur fagna í lokin.
Stjörnukonur fagna í lokin. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Stjarn­an sigraði Tinda­stól 2:1 í þriðju um­ferð í Bestu deild kvenna í knatt­spyrnu eft­ir frá­bær­ar loka­mín­út­ur hjá gest­un­um á Sauðár­króki í dag.

Þetta eru fyrstu stig Stjörn­unn­ar í deild­inni í ár en liðið var með núll stig og mín­us níu í marka­tölu fyr­ir leik­inn í dag. Tinda­stóll er með þrjú stig.

Leik­ur­inn var fjör­ug­ur til að byrja með. Heima­kon­ur settu bolt­ann í netið eft­ir aðeins fimm mín­út­ur en það var brotið á Önnu Maríu Bald­urs­dótt­ir, fyr­irliða Stjörn­unn­ar, í upp­bygg­ingu marks­ins og það stóð ekki. Þetta var fyrsti leik­ur Önnu Maríu á tíma­bil­inu en Stjarn­an saknaði henn­ar aug­ljós­lega í fyrstu tveim­ur leikj­um liðsins en Stjarn­an fékk sam­tals tólf mörk á sig í fyrstu tveim­ur leikj­um liðsins en aðeins eitt í dag.

Stjarn­an lá í sókn um tíma í fyrri hálfleik og fékk nokk­ur fín færi. Úlfa Dís Kreye Úlfars­dótt­ir fékk fínt færi eft­ir stund­ar­fjórðung þegar hún kom inn á völl­inn og skaut rétt fram hjá.

Á 42. mín­útu skoraði Makala Woods mark Tinda­stóls, gegn gangi leiks­ins, eft­ir flotta send­ingu upp völl­inn frá Elísu Bríet Björns­dótt­ir. Makala fékk bolt­ann, tók snún­ing, setti varn­ar­mann á rass­inn og skaut í vinstra hornið. Staðan því 1:0 í hálfleik fyr­ir heima­kon­um.

Seinni hálfleik­ur var mjög ró­leg­ur og Stjarn­an gerði sig ekki lík­lega til þess að fá stig úr leikn­um þar til á 88. mín­útu þegar varamaður­inn Jana Sól Valdi­mars­dótt­ir skoraði jöfn­un­ar­mark Stjörn­unn­ar.

Jessica Ayers stal síðan sigr­in­um fyr­ir Stjörn­una á loka­mín­útu upp­bót­ar­tím­ans þegar hún setti bolt­ann í fyrstu snert­ingu í markið eft­ir fyr­ir­gjöf frá vara­mann­in­um Gyðu Krist­íni Gunn­ars­dótt­ir.

Heima­kon­ur fengu eina sókn til að reyna að jafna en Vera Var­is varði vel og Stjarn­an fagnaði sigr­in­um.

Tinda­stóll 1:2 Stjarn­an opna loka
Augna­blik — sæki gögn...
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert