Það var glampandi sól þegar KA og FH hófu leik í Bestu-deild karla í dag. Hins vegar kom hafgolan inn Eyjafjörðinn með hálfgert þokuloft og var orðið ansi svalt og þungbúið í leikslok. Má líkja veðrinu við vonir og væntingar FH-inga fyrir leik og svo tilfinningum þeirra í leikslok. KA vann 3:2 eftir að FH hafði jafnað leikinn í tvígang. Seinna jöfnunarmark FH og sigurmark KA komu á sömu mínútunni og var þjálfari FH, Heimir Guðjónsson, ekki ánægður með þá staðreynd í viðtali skömmu eftir leik.
„Það er alltaf vont að tapa en við vorum sjálfum okkur verstir. Eftir að við jöfnuðum leikinn í 2:2 þá vorum við búnir að vera með undirtökin í einhverjar tíu mínútur Við fengum gott færi áður en við skoruðum. Svo erum við bara eins og villuráfandi sauðir. Þeir bara sparka fram á Viðar og allt í einu er boltinn kominn úr á væng og svo bara sending og mark. Í staðinn fyrir að halda skipulaginu og vera skynsamir og vinna út frá 2:2 markinu þá fór þetta svona.“
Það virtist færast kraftur í ykkur í hvert skipti sem KA komst yfir.
„Mér fannst sérstaklega eftir annað mark KA þá tókum við völdin á vellinum. Það breytir því ekki að það á ekki að vera þannig í fótbolta að liðin verði að lenda undir til að fara að spila almennilegan bolta. Við erum búnir að mæta í fjóra leiki í þessari deild og ekki verið klárir frá byrjun. Svo fáum við á okkur mark og þá fyrst ætla menn að redda hlutunum og byrja að spila fótbolta. En fram að því þá spilum við engan fótbolta. Menn eru staðir, vilja ekki fá boltann, engin hreyfing og við endum í löngum bolta. Jú, jú, við erum hættulegir í föstum leikatriðum. Það er ekki nóg og við verðum að fara að spila betri fótbolta, vera skynsamari og hjálpa hverjum öðrum. Gera þetta eins og hjá liði. Við erum bara komnir á þann stað í dag, þótt það séu bara fjórar umferðir búnar, að við erum ekki bara neðstir heldur langneðstir. Við eru í fallbaráttu og verðum að spyrna okkur frá botninum.“
Þið hafið alveg mannskapinn í að laga stöðuna.
„Já vissulega erum við með góðan mannskap. Það er samt ekki nóg að hafa góða leikmenn og góðan þjálfara. Menn þurfa allir að róa í sömu átt svo hlutirnir virki“ sagði hárbeittur Heimir að lokum