Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR-inga, var að vonum ánægður með stórsigur sinna manna á Skagamönnum en KR vann ÍA 5:0 í Bestu deild karla í fótbolta á Þróttarvelli í Laugardal í kvöld.
Hann segir að leikurinn í kvöld hafi hentað sínum mönnum vel. „Við vitum að Skagamenn eru aggressífir og vilja stíga upp, og þegar þú stígur upp og það mistekst, þá skilurðu eftir svæði og við vorum góðir að nýta þau á köflum,“ segir Óskar Hrafn og bætir við að sumar sóknir liðsins hafi verið framúrskarandi fínar.
„En svo fannst mér við stundum vera kærulausir á boltanum, sérstaklega í fyrri hluta fyrri hálfleiks, og við þurfum að laga það hratt,“ segir Óskar Hrafn og bendir á að Skagamenn hefðu á betri degi, og reyndar flest önnur lið í Bestu deildinni, getað refsað grimmilega fyrir að gera slík mistök aftur og aftur.
Fyrirliði KR, Aron Sigurðarsson, sneri aftur eftir leikbann og leiddi sína menn bókstaflega, bæði með því að skora fyrsta mark leiksins, en þar að auki átti hann stoðsendingu og svo annað mark í lok leiksins.
Óskar Hrafn segir að það hafi verið dýrmætt að fá Aron til baka, en að það hefði einnig verið mikilvægt að Matthias Præst opnaði markareikninginn fyrir félagið og að Eiður Gauti skoraði annan leikinn í röð. Þá hefðu allir leikmenn hans komist heilir frá leiknum, og að það skipti í raun meira máli en það að þetta var fyrsti leikurinn í sumar þar sem liðið hélt hreinu.
„Já, í raun og veru er það þannig, því að við erum ekki í fótbolta til þess að halda hreinu. Við erum í fótbolta til þess að skora mörk. Þannig að það er mikilvægara fyrir mig, en svo eru aðrir á annarri skoðun og ég ber bara virðingu fyrir þeirra skoðun,“ segir Óskar Hrafn.
Hann bætir þó við að það sé gott fyrir sjálfstraustið hjá leikmönnum, ekki síst Halldóri markmanni og varnarmenn liðsins, að hafa haldið hreinu. „En ég fer ekki á koddann himinlifandi yfir að hafa haldið hreinu, ég fer himinlifandi yfir að hafa skorað fimm mörk.“
Næsti leikur KR-inga er gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í Kópavogi, en Óskar Hrafn þjálfaði sem kunnugt er lið Blika og gerði að meisturum á sínum tíma. Mun það breyta einhverju fyrir undirbúning liðsins? „Nei, þetta eru að mörgu leyti sömu andlit og strákar og voru þegar ég var þarna, en það hvernig liðið spilar er gjörbreytt,“ segir Óskar Hrafn.
„Þetta verður hins vegar í fyrsta sinn sem ég kem á Kópavogsvöll eftir að ég hætti þar, þannig að það verður skemmtilegt.“