Kristján Guðmundsson, annar af tveimur þjálfurum Vals, var sáttur er hann mætti í viðtal til mbl.is eftir 3:0-sigur liðsins gegn Þór/KA í dag.
„Við þurftum að hafa ansi mikið fyrir því að vinna þennan leik. Við fengum opin færi í fyrri hálfleik og Þór/KA kom til baka og átti sín færi líka. En einhvern veginn hélst leikurinn í jafnvægi.
Við hefðum viljað fá meiri orku í fyrri hálfleikinn en það kom kvefpest inn í hópinn sem örugglega hafði áhrif á nokkra leikmenn sem spila veikar í dag.
Í upphafi seinni hálfleiks þurftum við heldur betur að standast áhlaup frá Þór/KA og það tókst. Við ræddum það vel fyrir leikinn að varnarleikurinn yrði að vera í lagi og hann var þokkalega í lagi.
Þegar við fáum þessi upphlaup og skorum þessi mörk sem við skorum þá var það eitthvað sem við ætluðumst til þess að leikmenn myndu framkvæma. Komast utan á teiginn og finna svæðin á milli varnarmannanna þeirra,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is eftir leik.
Það tók Val langan tíma að brjóta ísinn en fyrsta markið kom á 61. mínútu.
„Ekkert skrítið, þær eru búnar að vinna báða sína leiki í fyrstu tveimur umferðunum og eru með mjög sterkt lið. Þær eiga náttúrulega markahæsta leikmann síðasta árs í sínu liði.
Við erum ennþá að búa okkar lið til og ennþá að kynnast þótt að það séu komnir nokkrir mánuðir. Nú eru komnir alvöru leikir þannig að það kemur í ljós hvað leikmenn geta,“ sagði Kristján
Félagaskiptaglugginn er ennþá opinn, eruð þið eitthvað að skoða það að styrkja ykkur?
„Við erum að ræða það en það er ekkert fast í bígerð eða neitt slíkt. En það er alveg upp á borði að fylgjast með einhverjum hlutum,“ sagði Kristján.
Sjö stig úr fyrstu þremur leikjunum, eruð þið sátt með þessa byrjun?
„Við getum alveg verið það. Við áttum náttúrulega að nýta færin í fyrsta leiknum á móti FH og skora. Svo fékk maður á tilfinninguna að þetta ætlaði að vera pínu framhald, við vorum ekki að nýta góð færi í fyrri hálfleik.
Liðið er að taka góð skref fram á við og verða betra en við erum að kynnast ennþá hvernig við tökum á einhverjum hlutum í leikjum. Þær eru að læra á okkur og við á þær, hvernig þær bregðast við í mismunandi stöðum og vonandi er þetta nógu gott til að safna stigum,“ bætti Kristján við að lokum.