KA vann FH 3:2 í baráttuleik á KA-vellinum í dag. Leikurinn var í 4. umferð Bestu-deildarinnar og lyfti sigurinn KA úr botnsætinu upp í það áttunda. KA er nú með fjögur stig. FH datt niður í neðsta sætið fyrir vikið og er aðeins með eitt stig.
Liðin voru jöfn í botnsætunum tveimur þegar leikurinn hófst og því einkar mikilvægt að kroppa inn fleiri stig.
KA byrjaði leikinn sterkt og fékk dauðafæri á upphafsmínútunni. Bjarni Aðalsteinsson komst þá einn í gegn en Mathias Rosenörn bjargaði með úthlaupi. Heimamenn voru síðan örlítið sterkari og KA skoraði á undan í leiknum. Hrannar Björn Steingrímsson, sem var mjög ferskur í fyrri hálfleik, smurði boltann út við stöng með hörkuskoti eftir um kortérs leik. KA var áfram sterkara liðið en FH átti nokkrar snarpar sóknir. Úr einni þeirra kom mark en Böðvar Böðvarsson setti boltann í netið eftir hornspyrnu og fastan bolta inn í teig eftir að KA hafði skallað boltann í burtu.
Í stöðunni 1:1 var jafnfræði með liðunum fram að hálfleik en KA-menn voru örlítið beittari. Liðin fóru með jafna stöðu inn í hálfleikinn.
KA skoraði næsta mark. Hornspyrna barst inn í teig FH og líklegast fór boltinn af Sigurði Bjarti Hallssyni og í netið.
Smám saman drógu KA-menn sig aftar og FH fór að ógna. FH fékk dauðafæri þegar kortér var eftir en Steinþór Már Auðunsson varði frá Sigurði Bjarti Hallssyni, sem var kominn einn í gegn. Jöfnunarmark kom loks á 83. mínútu og var það líklega sjálfsmark hjá Hans Viktori Guðmundssyni. Enn var skorað eftir hornspyrnu. Fastur og hár bolti barst á nærstöng KA-marksins. Líklega staust hann af hárbroddum Hans Viktors og inn í markið við fjærstöngina.
Bjarni Aðalsteinsson skoraði hinum megin innan við mínútu síðar. Var hann einn inni í vítateig FH en nákvæm sending Ásgeirs Sigurgeirssonar og fumlaus afgreiðsla Bjarna skiluðu boltanum í netið.
FH reyndi að jafna þriðja sinnið en KA barðist hressilega fyrir sínu. Eftir tæpar 98 mínútur var loks flautað af og KA gat fagnað innilega sínum fyrsta sigri.
KA-menn voru mun þéttari í þessum leik en að undanförnu en samt fengu þeir á sig tvö mörk. Hrannar Björn kom virkilega sterkur inn í liðið. Ásamt honum þá voru Bjarni Aðalsteinsson og Marcel Römer þeirra sterkustu menn. Færeyingurinn Jóan Símun Edmundssen var nánast ósýnilegur og Rodrigo Gomes var í basli allan leikinn.
Sprækastur FH-inga var Kjartan Kári Halldórsson en fátt virtist gerast hjá Hafnfirðingum nema hann væri í boltanum. Markvörðurinn Mathias Rosenörn varði nokkur skot en annars var lið FH nokkuð jafnt í leiknum.