KA vann botnslaginn

Steinþór Már Auðunsson í marki KA handsamar boltann í dag.
Steinþór Már Auðunsson í marki KA handsamar boltann í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA vann FH 3:2 í bar­áttu­leik á KA-vell­in­um í dag. Leik­ur­inn var í 4. um­ferð Bestu-deild­ar­inn­ar og lyfti sig­ur­inn KA úr botnsæt­inu upp í það átt­unda. KA er nú með fjög­ur stig. FH datt niður í neðsta sætið fyr­ir vikið og er aðeins með eitt stig.

Liðin voru jöfn í botnsæt­un­um tveim­ur þegar leik­ur­inn hófst og því einkar mik­il­vægt að kroppa inn fleiri stig.

KA byrjaði leik­inn sterkt og fékk dauðafæri á upp­haf­smín­út­unni. Bjarni Aðal­steins­son komst þá einn í gegn en Mat­hi­as Rosenörn bjargaði með út­hlaupi. Heima­menn voru síðan ör­lítið sterk­ari og KA skoraði á und­an í leikn­um. Hrann­ar Björn Stein­gríms­son, sem var mjög fersk­ur í fyrri hálfleik, smurði bolt­ann út við stöng með hörku­skoti eft­ir um kortérs leik. KA var áfram sterk­ara liðið en FH átti nokkr­ar snarp­ar sókn­ir. Úr einni þeirra kom mark en Böðvar Böðvars­son setti bolt­ann í netið eft­ir horn­spyrnu og fast­an bolta inn í teig eft­ir að KA hafði skallað bolt­ann í burtu.

Í stöðunni 1:1 var jafn­fræði með liðunum fram að hálfleik en KA-menn voru ör­lítið beitt­ari. Liðin fóru með jafna stöðu inn í hálfleik­inn.

 KA skoraði næsta mark. Horn­spyrna barst inn í teig FH og lík­leg­ast fór bolt­inn af Sig­urði Bjarti Halls­syni og í netið.

Smám sam­an drógu KA-menn sig aft­ar og FH fór að ógna. FH fékk dauðafæri þegar kortér var eft­ir en Steinþór Már Auðuns­son varði frá Sig­urði Bjarti Halls­syni, sem var kom­inn einn í gegn. Jöfn­un­ar­mark kom loks á 83. mín­útu og var það lík­lega sjálfs­mark hjá Hans Vikt­ori Guðmunds­syni. Enn var skorað eft­ir horn­spyrnu. Fast­ur og hár bolti barst á nær­stöng KA-marks­ins. Lík­lega staust hann af hár­brodd­um Hans Vikt­ors og inn í markið við fjær­stöng­ina.

Bjarni Aðal­steins­son skoraði hinum meg­in inn­an við mín­útu síðar. Var hann einn inni í víta­teig FH en ná­kvæm send­ing Ásgeirs Sig­ur­geirs­son­ar og fum­laus af­greiðsla Bjarna skiluðu bolt­an­um í netið.

FH reyndi að jafna þriðja sinnið en KA barðist hressi­lega fyr­ir sínu. Eft­ir tæp­ar 98 mín­út­ur var loks flautað af og KA gat fagnað inni­lega sín­um fyrsta sigri.

KA-menn voru mun þétt­ari í þess­um leik en að und­an­förnu en samt fengu þeir á sig tvö mörk. Hrann­ar Björn kom virki­lega sterk­ur inn í liðið. Ásamt hon­um þá voru Bjarni Aðal­steins­son og Marcel Rö­mer þeirra sterk­ustu menn. Fær­ey­ing­ur­inn Jóan Sím­un Ed­munds­sen var nán­ast ósýni­leg­ur og Rodrigo Gomes var í basli all­an leik­inn.

Spræk­ast­ur FH-inga var Kjart­an Kári Hall­dórs­son en fátt virt­ist ger­ast hjá Hafn­f­irðing­um nema hann væri í bolt­an­um. Markvörður­inn Mat­hi­as Rosenörn varði nokk­ur skot en ann­ars var lið FH nokkuð jafnt í leikn­um.

KA 3:2 FH opna loka
Augna­blik — sæki gögn...
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert