KR-ingar fóru með góðan sigur af hólmi þegar þeir mættu erkifjendum sínum af Skaganum í 4. umferð Bestu deildar karla. Skoruðu þeir fimm mörk gegn engu, þrátt fyrir að Skagamenn hefðu svo sannarlega fengið tækifæri til þess að skora.
Leikið var sem fyrr á heimavelli Þróttara, þar sem framkvæmdir eru nú á KR-velli, og voru það Skagamenn sem byrjuðu leikinn ívið betur. Lágu þeir til baka og treystu á að riðla spili KR-inga með skyndisóknum, og skall hurð nokkrum sinni nærri hælum Vesturbæinga í byrjun leiksins.
Töpuðu KR-ingar boltanum oft á miðsvæðinu þannig að skapaðist hætta af. Sóknarmenn Skagamanna, þeir Viktor Jónsson og Gísli Laxdal fengu þannig báðir góð færi til þess að skora fyrsta mark leiksins á fyrstu tuttugu mínútunum, en í öll skiptin náði KR-vörnin eða Halldór Snær Georgsson, markvörður KR, að halda boltanum fyrir utan línuna.
Aron Sigurðarson, fyrirliði KR-inga, braut loks ísinn á 24. mínútu, þegar hann náði að spila sig inn í vítateig Skagamanna eftir innkast KR-inga og lagði boltann framhjá Árna Marinó, markmann Skagamanna, sem þó var með hendur í boltanum. 1:0 fyrir heimamenn og nokkuð gegn gangi leiksins ef horft var út frá færum.
Aron sneri til baka í kvöld eftir tveggja leikja bann, sem flestum Vesturbæingum þótti ósanngjarnt, og var hann greinilega óþreyjufullur að fá að sýna hvað í sér býr. Það var því kannski skrifað í skýin að hann myndi opna markareikninginn í kvöld.
Markið hafði hressandi áhrif á KR-inga sem komu sér nú betur í leikinn, en Skagamenn voru þó áfram skeinuhættir. Bæði Rúnar Már Sigurjónsson og Viktor Jónsson fengu þannig skotfæri, sem þeir nýttu illa.
Uppspil Skagamanna brást hins vegar á 32. mínútu, en þá átti Haukur Andri Haraldsson slæma þversendingu á miðjunni sem Luke Rae komst inn í. Þaut hann upp hægri kantinn, lagði hann fyrir sig og skoraði með laglegu skoti í fjærhornið. Heimamenn höfðu þannig snúið leiknum algjörlega sér í vil.
Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks voru KR-ingar nær því að skora þriðja markið en Skagamenn að minnka muninn, og átti Eiður Gauti Sæbjörnsson skot í stöng á 35. mínútu. Frákastið endaði hjá Matthíasi Præst, en skot hans var varið.
KR-ingar voru nokkuð sterkari í upphafi síðari hálfleiks, en Skagamenn fengu þó áfram sín færi. Leikurinn einkenndist þó af mun meiri barning en í fyrri hálfleik.
Á 64. mínútu náðu KR-ingar loks að nýta sér styrk sinn. Aron lagði þar boltann inn á Matthías Præst, sem þakkaði fyrir sig, og skoraði jafnframt sitt fyrsta mark fyrir Vesturbæinga.
Úrslit leiksins voru þar með ráðin og eina spurningin hversu stór sigur KR-inga yrði. Aron Sigurðarson kórónaði stórleik sinn með sínu öðru marki á 84. mínútu, og Eiður Gauti Snæbjörnsson rak svo smiðshöggið á stórsigur heimamanna tveimur mínútum síðar.
Mörk breyta fótboltaleikjum, og Skagamenn munu eflaust naga sig vel í handarbökin yfir færunum sem klúðruðust í fyrri hálfleik meðan staðan var enn markalaus. KR-ingar hafa hins vegar bara einn gír, blússandi sóknarbolta, og í kvöld sást hversu skeinuhætt liðið getur verið þegar allt gengur upp, en þetta var jafnframt fyrsti leikur liðsins þar sem þeir halda hreinu.
KR-ingar eru nú með sex stig eftir fjórar umferðir og sitja þeir sem stendur í þriðja sæti deildarinnar. Skagamenn sitja hins vegar eftir með þrjú stig í næstneðsta sæti og hafa ekki unnið leik frá því í fyrstu umferð.