Þór/KA mátti þola 3:0-tap gegn Val í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í dag. Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þór/KA, var að vonum svekktur er hann mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.
„Ég er rosalega svekktur með 3:0. Í fyrsta lagi er ég mjög svekktur að fara ekki með neitt stig héðan og í öðru lagi er ég mjög ósáttur með hvað þetta eru ljót úrslit fyrir mitt lið. Mér fannst í 60 mínútur hefði þetta átt að vera jafn leikur.
Það er bara þannig að ef þú gefur smá færi á þér þá er beitt skyndisóknarlið eins og Valur rosalega fljótt að refsa. Þær gera það í dag þó að mér fannst við klaufar hvernig við missum boltann í þessum stöðum þegar þær sækja á okkur og þessi mörk koma. Ég er rosa ósáttur með að skora ekki, það er rosa ólíkt okkur að skora ekki.“
Þið byrjið seinni hálfleikinn af krafti og fáið síðan víti á ykkur. Var það ekki frekar svekkjandi?
„Ég sá ekki almennilega þetta víti en víti breyta leikjum, mörk breyta leikjum og þarna fékk Valur miða inn í stýrishúsið og alla leið upp í skipstjórastólinn.
Ég er samt ánægður með stelpurnar hvað þær lögðu í þetta og ánægður með vikuna, daginn í dag og hvað þær lögðu á sig en ég er ekkert ánægður með leikinn því þetta var ekki góður leikur, eða það er að segja fótboltalega séð fyrir bæði lið, var þetta ekki góður leikur.
En Valur gerði betur úr þessum baráttuleik og þær eiga sigurinn skilið í dag. Við eigum pínu skilið að vera ósáttar með okkur alveg þangað til í fyrramálið,“ sagði Jóhann.
Sex stig úr fyrstu þremur leikjunum, ertu sáttur með þessa byrjun?
„Ég er mjög sáttur en ég er ósáttur núna því ég tapaði núna, en svo get ég verið sáttur eftir næsta leik, þannig virkar þetta. Við erum á betri stað en í fyrra, ég er alveg handviss um það.
Við erum betri, lykilleikmenn eru betri, yngri leikmennirnir eru betri. En það er ekki þar með sagt að við spilum alltaf frábæra leiki, það koma slæmir leikir inn á milli.
Þessi var ekkert spes hjá okkur, við vorum meiri klaufar en við eigum að vera. Við erum ósátt með það hvernig við afhendum Val hérna í restina þennan leik.
Við verðum sátt þegar nýr dagur rís, það þýðir ekkert að grenja yfir þessu heillengi,“ sagði Jóhann að lokum.