Breiðablik komst hins vegar á toppinn eftir 1:0-sigur þar sem Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði skoraði sigurmarkið.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson aðstoðarþjálfari Breiðabliks mætti í viðtal eftir leik þar sem Halldór Árnason gaf ekki kost á viðtali.
1:0 sigur í dag, hver eru fyrstu viðbrögð eftir leikinn?
„Ég er stoltur af frammistöðunni fyrst og fremst, mættum frábæru liði hérna í dag. Við erum alltaf að vinna í okkar gildum og hlutum og taka því sem er hent á okkur. Sóknarlega þurftum við að vera þolinmóðir, gegn gríðarlega sterkum varnarleik hjá Vestramönnum. Ég var gríðarlega ánægður hvað við vorum agaðir og skipulagðir í sóknarleiknum.
Svo er ég mest ánægður með varnarleikinn í dag, við vorum ákveðnir og undirbúnir fyrir skyndisóknir þeirra sem þeir eru gríðarlega góðir í. Í heildina er ég mjög stoltur af frammistöðunni,“ sagði Arnór við mbl.is.
Þið voruð heilt yfir afar góðir í dag og gáfuð fá færi á ykkur. Ert þú ekki sáttur við heildarframmistöðuna í dag og heildarbraginn á liðinu?
„Jú, ég myndi segja það og það er mjög óraunhæft að krefjast þess að andstæðingurinn fái aldrei færi. Sérstaklega þegar þú mætir liði eins og Vestra sem er með sterka menn fram á við sem eru góðir í að spila sín á milli. Þessir þrír fremstu ná ansi vel saman í samspili og skyndisóknum. Heilt yfir er ég ánægður með góðan aga og einbeitingu“.
Það var mikið spennustig niðri á hliðarlínu í leiknum í dag. Var eitthvað sérstakt í leiknum sem olli því?
„Ég held að þetta hafi nú verið á pari, réttlætiskenndin vaknar oft hjá mönnum. Ég held samt að þetta sé bara eins og vanalega þegar það er mikið undir.“