Valur vann sterkan 3:0-sigur gegn Þór/KA í þriðju umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í dag.
Úrslitin þýða að Valur er í öðru sæti með sjö stig en Þór/KA er með sex stig í þriðja sæti.
Leikurinn fór nokkuð rólega af stað. Valskonur voru meira með boltann en sköpuðu sér lítið af færum. Gestirnir voru þéttir fyrir og ógnuðu með skyndisóknum sínum.
Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir fékk besta færi fyrri hálfleiksins fyrir Val á 36. mínútu. Það kom eftir góða fyrirgjöf frá Fanndísi Friðriksdóttur sem fann Ragnheiði aleina í teignum en skot hennar var beint á Jessica Berlin, markvörð Þórs/KA.
Staðan var markalaus í hálfleik.
Eftir rólega byrjun í síðari hálfleik fékk Valur vítaspyrnu á 61. mínútu. Fanndís átti fyrirgjöf í höndina á Bríeti Jóhannsdóttur og dæmdi Þórður Þorsteinn Þórðarson, dómari leiksins, vítaspyrnu.
Jordyn Rhodes fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi, 1:0.
Á 70. mínútu komst Valur í tveggja marka forystu eftir sjálfsmark. Eftir skyndisókn Vals átti Fanndís sendingu fyrir markið á Jasmín sem átti skot í Kolfinnu Eik Elínardóttur og þaðan í markið.
Fanndís innsiglaði sigur Vals á 87. mínútu. Varamaðurinn Nadía Atladóttir lagði boltann á Fanndísi hægra megin í teignum sem átti fast skot sem Jessica Berlin varði í markið.
Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og lokaniðurstaða því sannfærandi 3:0-sigur Vals.