„Tilfinningin er mjög góð,“ sagði Arna Eiríksdóttir fyrirliði FH eftir sigur liðsins á FHL, 3:1, í 3. umferð Bestu deildarinnar á Kaplakrikavelli í dag.
FH fer vel af stað í Bestu deildinni en Arna skoraði tvö af þremur mörkum FH-liðsins.
„Þetta var mjög sterkur sigur hjá okkur og gott að fara úr leiknum með stigin þrjú,“ sagði Arna beint eftir leik.
Arna skoraði tvö mörk en það seinna var góður skalli eftir hornspyrnu.
Hvernig var að skora tvö mörk?
„Það var frábært. Ég náði ekkert að skora í fyrra þannig ég var búin að setja mér markmiðið að gera mig aðeins meira gildandi inn í teig. Því var gott að ná inn tveimur í dag.“
Fyrra mark Örnu var skrautlegt en þá virtist hún ætla að senda boltann fyrir en hann hafnaði síðan í netinu.
„Ég er eiginlega búin að uppljóstra við fótbolta.net að þetta átti að vera sending, þannig ég verð að segja það hér líka,“ játaði Arna.
Hvað skilaði sigrinum í dag?
„Við komum flottar inn í byrjun leiksins. Við vorum ótrúlega góðar í pressunni og vorum að láta boltann rúlla vel.
Síðan voru fyrstu 15 til 20 mínúturnar í seinni hálfleik ekki alveg nógu góðar en við náðum að vinna okkur úr því. Við tókum stjórn aftur á leiknum og þá gekk þetta vel.“
Íris Una Þórðardóttir meiddist illa í fyrri hálfleik en hún er annar leikmaður FH sem meiðist sem af er tímabils. Vigdís Edda Friðriksdóttir meiddist í fyrsta leik gegn Val.
„Þetta leit alls ekki vel út og hræðilegt fyrir okkur að að tvær séu að meiðast snemma á tímabilinu. Hún fékk högg á hnéð en við verðum bara að vona það besta og vera bjartsýnar fyrir hennar hönd.“
FH er á toppnum með sjö af níu stigum mögulegum, hvað er að skila þeim árangri?
„Við höfum komið ótrúlega vel undirbúnar í þetta mót. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem inn með FH eftir að hafa verið með þeim á undirbúningstímabilinu.
Stelpurnar eru búnar að leggja mjög mikið á sig í allan vetur, ég held að það sé helsti lykillinn að þessu.“
FH heimsækir Þór/KA, sem hefur einnig farið vel af stað, í næstu umferð.
„Sá leikur leggst mjög vel í mig. Ég býst við hörkuleik. Þær eru alltaf góðar í Boganum þannig við verðum að mæta á okkar besta degi.“