Var búin að uppljóstra því við aðra miðla

FH-ingar fagna í dag.
FH-ingar fagna í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

„Til­finn­ing­in er mjög góð,“ sagði Arna Ei­ríks­dótt­ir fyr­irliði FH eft­ir sig­ur liðsins á FHL, 3:1, í 3. um­ferð Bestu deild­ar­inn­ar á Kaplakrika­velli í dag.

FH fer vel af stað í Bestu deild­inni en Arna skoraði tvö af þrem­ur mörk­um FH-liðsins.

„Þetta var mjög sterk­ur sig­ur hjá okk­ur og gott að fara úr leikn­um með stig­in þrjú,“ sagði Arna beint eft­ir leik. 

Gera mig gild­andi inn í teig

Arna skoraði tvö mörk en það seinna var góður skalli eft­ir horn­spyrnu. 

Hvernig var að skora tvö mörk?

„Það var frá­bært. Ég náði ekk­ert að skora í fyrra þannig ég var búin að setja mér mark­miðið að gera mig aðeins meira gild­andi inn í teig. Því var gott að ná inn tveim­ur í dag.“

Fyrra mark Örnu var skraut­legt en þá virt­ist hún ætla að senda bolt­ann fyr­ir en hann hafnaði síðan í net­inu. 

„Ég er eig­in­lega búin að upp­ljóstra við fót­bolta.net að þetta átti að vera send­ing, þannig ég verð að segja það hér líka,“ játaði Arna. 

Hvað skilaði sigr­in­um í dag?

„Við kom­um flott­ar inn í byrj­un leiks­ins. Við vor­um ótrú­lega góðar í press­unni og vor­um að láta bolt­ann rúlla vel. 

Síðan voru fyrstu 15 til 20 mín­út­urn­ar í seinni hálfleik ekki al­veg nógu góðar en við náðum að vinna okk­ur úr því. Við tók­um stjórn aft­ur á leikn­um og þá gekk þetta vel.“

Íris Una Þórðardótt­ir meidd­ist illa í fyrri hálfleik en hún er ann­ar leikmaður FH sem meiðist sem af er tíma­bils. Vig­dís Edda Friðriks­dótt­ir meidd­ist í fyrsta leik gegn Val. 

„Þetta leit alls ekki vel út og hræðilegt fyr­ir okk­ur að að tvær séu að meiðast snemma á tíma­bil­inu. Hún fékk högg á hnéð en við verðum bara að vona það besta og vera bjart­sýn­ar fyr­ir henn­ar hönd.“

FH er á toppn­um með sjö af níu stig­um mögu­leg­um, hvað er að skila þeim ár­angri? 

„Við höf­um komið ótrú­lega vel und­ir­bún­ar í þetta mót. Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem inn með FH eft­ir að hafa verið með þeim á und­ir­bún­ings­tíma­bil­inu. 

Stelp­urn­ar eru bún­ar að leggja mjög mikið á sig í all­an vet­ur, ég held að það sé helsti lyk­ill­inn að þessu.“

FH heim­sæk­ir Þór/​KA, sem hef­ur einnig farið vel af stað, í næstu um­ferð. 

„Sá leik­ur leggst mjög vel í mig. Ég býst við hörku­leik. Þær eru alltaf góðar í Bog­an­um þannig við verðum að mæta á okk­ar besta degi.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert