Höskuldur skaut Blikum á toppinn

Vladimir Tufegdzic úr Vestra og Höskuldur Gunnlaugsson hjá Breiðabliki eigast …
Vladimir Tufegdzic úr Vestra og Höskuldur Gunnlaugsson hjá Breiðabliki eigast við í dag. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Breiðablik er komið upp í topp­sæti Bestu deild­ar karla í fót­bolta eft­ir útisig­ur á Vestra, 1:0, í 4. um­ferðinni í dag. Hösk­uld­ur Gunn­laugs­son skoraði sig­ur­markið á 72. mín­útu. 

Fyrri hálfleik­ur­inn spilaðist þannig að Breiðablik stjórnaði leikn­um og Vestri varðist djúpt og sótti hratt. Breiðablik kom sér í marg­ar góðar stöður en vantaði herslumun­inn til að klára sókn­irn­ar. Sam­vinna Óla Vals og Ant­ons Loga á vinstri vængn­um skapaði mikla hættu en Vestra­menn náðu að verj­ast vel.

Tobi­as Thomsen átti tvö bestu fær­in í fyrri hálfleik, fyrst þegar Hösk­uld­ur sendi hann í gegn og svo átti hann skot eft­ir horn­spyrnu en Smit varði í bæði skipt­in mjög vel. Vestri átti nokk­ur góð upp­hlaup og var Daði Berg þar fremst­ur í flokki. Hann átti 2 skot, annað beint á Ant­on og hitt í hliðarnetið. Það sauð svo upp úr á 24. mín­útu þegar Túfa og Val­geir lentu í ein­hverju hnoði og báðir bekk­ir sprungu hrein­lega.

Vestra­menn vildu rautt á Val­geir og Blikar vildu eitt­hvað á Túfa, Vil­hjálm­ur Al­var róaði mann­skap­inn og leik­ur­inn hélt áfram. Við þetta fjaraði dá­lítið fyrri hálfleik­ur­inn út, Breiðablik var betri en staðan var 0:0 í hálfleik.

Seinni hálfleik­ur­inn byrjaði með mikl­um lát­um. Vestra­menn áttu ágæt­is tæki­færi en bæði skot voru mát­lít­il, fyrst hjá Montiel og síðan hjá Peder­sen. Eft­ir þessa ágæt­is byrj­un á seinni hálfleik tók Breiðablik öll völd á vell­in­um.

Tobi­as Thomsen átti að skora á 61. mín­útu þegar Ágúst Orri keyrði inn í teig og lagði bolt­ann á Tobi­as sem setti bolt­ann fram hjá í góðu færi. Það var síðan á 72. mín­útu sem Breiðablik komst yfir. Óli Val­ur og Vikt­or Karl gerðu afar vel úti á hægri kanti, spiluðu sig í gegn­um Vestra­menn­ina þar og Vikt­or Karl fékk stór­kost­lega send­ingu inn í teig og Hösk­uld­ur mætti og kláraði færið glæsi­lega. Frá­bært mark hjá Breiðabliki.

Eft­ir markið fjaraði leik­ur­inn dá­lítið út en á 90. mín­útu fékk Breiðablik víti þegar Fatai braut á Óla Val. Heima­menn voru mjög ósátt­ir við dóm­inn en dóm­ari leiks­ins var al­veg viss og Tobi­as steig á punkt­inn. Smit varði glæsi­lega og var þetta það síðasta markverða sem gerðist í leikn­um.

Breiðablik vann verðskuldaðan sig­ur og fer með sigr­un­um á topp­inn í deild­inni. Vestri spilaði leik­inn ágæt­lega varn­ar­lega en vantaði mikið upp á að halda í bolt­ann og skapa sér færi. Heima­menn voru mjög ósátt­ir við dóm­ar­ann all­an leik­inn og það fór mik­il orka í það.

Vestri 0:1 Breiðablik opna loka
Augna­blik — sæki gögn...
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert