Breiðablik er komið upp í toppsæti Bestu deildar karla í fótbolta eftir útisigur á Vestra, 1:0, í 4. umferðinni í dag. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði sigurmarkið á 72. mínútu.
Fyrri hálfleikurinn spilaðist þannig að Breiðablik stjórnaði leiknum og Vestri varðist djúpt og sótti hratt. Breiðablik kom sér í margar góðar stöður en vantaði herslumuninn til að klára sóknirnar. Samvinna Óla Vals og Antons Loga á vinstri vængnum skapaði mikla hættu en Vestramenn náðu að verjast vel.
Tobias Thomsen átti tvö bestu færin í fyrri hálfleik, fyrst þegar Höskuldur sendi hann í gegn og svo átti hann skot eftir hornspyrnu en Smit varði í bæði skiptin mjög vel. Vestri átti nokkur góð upphlaup og var Daði Berg þar fremstur í flokki. Hann átti 2 skot, annað beint á Anton og hitt í hliðarnetið. Það sauð svo upp úr á 24. mínútu þegar Túfa og Valgeir lentu í einhverju hnoði og báðir bekkir sprungu hreinlega.
Vestramenn vildu rautt á Valgeir og Blikar vildu eitthvað á Túfa, Vilhjálmur Alvar róaði mannskapinn og leikurinn hélt áfram. Við þetta fjaraði dálítið fyrri hálfleikurinn út, Breiðablik var betri en staðan var 0:0 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn byrjaði með miklum látum. Vestramenn áttu ágætis tækifæri en bæði skot voru mátlítil, fyrst hjá Montiel og síðan hjá Pedersen. Eftir þessa ágætis byrjun á seinni hálfleik tók Breiðablik öll völd á vellinum.
Tobias Thomsen átti að skora á 61. mínútu þegar Ágúst Orri keyrði inn í teig og lagði boltann á Tobias sem setti boltann fram hjá í góðu færi. Það var síðan á 72. mínútu sem Breiðablik komst yfir. Óli Valur og Viktor Karl gerðu afar vel úti á hægri kanti, spiluðu sig í gegnum Vestramennina þar og Viktor Karl fékk stórkostlega sendingu inn í teig og Höskuldur mætti og kláraði færið glæsilega. Frábært mark hjá Breiðabliki.
Eftir markið fjaraði leikurinn dálítið út en á 90. mínútu fékk Breiðablik víti þegar Fatai braut á Óla Val. Heimamenn voru mjög ósáttir við dóminn en dómari leiksins var alveg viss og Tobias steig á punktinn. Smit varði glæsilega og var þetta það síðasta markverða sem gerðist í leiknum.
Breiðablik vann verðskuldaðan sigur og fer með sigrunum á toppinn í deildinni. Vestri spilaði leikinn ágætlega varnarlega en vantaði mikið upp á að halda í boltann og skapa sér færi. Heimamenn voru mjög ósáttir við dómarann allan leikinn og það fór mikil orka í það.