KA vann fyrsta sigur sinn í Bestu-deild karla í dag. Lið FH var í heimsókn á KA-vellinum en fyrir leik þá voru liðin í botnsætunum með eitt stig hvort.
KA vann 3:2 eftir að FH hafði jafnað leikinn í tvígang. Gaman er að geta þess að seinna jöfnunarmark FH og sigurmark KA komu á sömu mínútunni.
Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, gat brosað í kampinn eftir leik eftir nokkuð erfiða byrjun í deildinni.
„Það er gott að fá fyrsta sigurinn í hús. Við vissum það að liðið þyrfti að vaxa inn í tímabilið. Við erum búnir að lenda í rosalegum skakkaföllum í vetur. Svo erum við búnir að tapa tveimur fyrstu útileikjunum, reyndar á móti mjög sterkum liðum Víkings og Vals. Það hefur aðeins vantað svo ég gæti verið fyllilega sáttur. Í dag sýndum við betri frammistöðu en áður. Við vorum að berjast betur sem heild, vorum að pressa betur og grimmdin var til staðar. Það gerði allt léttara fyrir vörnina.
Mörk FH komu bæði upp úr hornspyrnum. Boltinn kemur inn í teig og bara spurning um það hver nær honum. Seinna markið var svo sjálfsmark. Þarna eru FH-ingar mjög sterkir og við vissum það. Þeir voru með hávaxið lið og eru góðir í að vinna fyrsta boltann. Svo er það spurning með annan boltann. Við höndluðum þetta nokkuð vel í dag, þrátt fyrir mörkin. Það er erfitt að eiga við FH í þessum hornspyrnum.“
Þeir voru duglegir að dæla löngum boltum inn á teiginn. Verðið þið ekki að gera betur í að verjast hornum og þá eru hlutirnir að fara í gang?
„Við erum alveg himinlifandi hérna í KA. Við höfum engar áhyggjur. Vinna mín snýst um það að láta lið okkar verða eins og við viljum vera, að okkar frammistaða sé góð. Þá vitum við að stigin munu koma. Nú er fyrsti sigurinn kominn og byrjunin hjá okkur getur talist í lagi. Mér fannst við flottir varnarlega. Við sköpum fullt af færum, fyrir utan mörkin. Ég er bara mjög ánægður með þetta,“ sagði Hallgrímur að lokum.