„Þetta var svekkjandi,“ sagði Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar eftir 3:0-tap sinna manna gegn Fram í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.
„Framarar voru skarpari en við á lykilstundum í leiknum, grimmari í teigunum og því fór eins og fór. Við vorum að spila ágætlega úti á velli og komast í ágætis stöður en það vantaði meiri ákveðni í síðasta þriðjung til að klára þetta,“ sagði Magnús í viðtali við mbl.is eftir leik.
Hvað hefði mátt fara betur hjá ykkur í kvöld?
„Við fáum þrjú mörk á okkur sem er ekki gott, svo að sjálfsögðu hefðum við geta varist betur á þessum augnablikum. Það var kafli í fyrri hálfleik þar sem Framarar þjörmuðu ansi hressilega að okkur og við vorum ekki nógu góðir.
Mér fannst við bregðast betur í síðari hálfleik og gera betur. Mér finnst 3:0 ekki endurspegla gang leiksins, Framarar eiga skilið sigur en mér fannst hann full stór miðað við gang leiksins.“
Í þriðja marki Fram vildu leikmenn Aftureldingar fá brot þegar Vuk Oskar Dimitrijevic vann boltann af Aroni Jónssyni í aðdragandanum.
„Klárt brot. Aron er mjög heiðarlegur leikmaður og hann myndi ekki liggja í mínútu meiddur ef það hefði ekki verið farið í hann. Mér fannst þetta vera klárt brot en þeir mátu þetta svona dómararnir,“
Jökull Andrésson markvörður Aftureldingar fór meiddur af velli í hálfleik. Jökull er lykilleikmaður í liðinu og segir Magnús að meiðslin séu smávægileg.
„Þetta er bara eitthvað smávægilegt þannig ég reikna með að hann verði frá í nokkra daga. En Arnar [Daði Jóhannesson] kom frábær inn í markið. Við erum með tvo góða markmenn og Arnar stóð sig frábærlega í seinni hálfleik,“
Afturelding fær Stjörnuna í heimsókn í næstu umferð. Magnús segir að leikurinn leggist vel í liðið.
„Nú fáum við viku til að undirbúa þann leik og það er bara að gera það vel. Við þurfum að reyna bæta ýmislegt sem við hefðum geta gert betur í dag og vera klárir í þann leik. Það er engin spurning að það verður hörkuleikur og vonandi fáum við geggjað kvöld á Varmá og frábæran stuðning eins og í síðasta heimaleik, “ sagði Magnús að lokum.