Helgi Guðjónsson, leikmaður Víkings úr Reykjavík, var svekktur með 1:1-jafntefli á útivelli gegn Val í 4. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta.
Patrick Pedersen jafnaði fyrir Val í seinni hálfleik og voru Víkingar ósáttir við vítið, sem Jónatan Ingi Jónsson náði í.
„Mér fannst þeir fá ódýrt víti þegar þeir fóru af stað þegar allir eru að tala við dómarann eftir að hann dæmdi aukaspyrnu. Upp úr því kemur vítið og þeir fá meðbyr eftir það. Við vorum svo óheppnir að skora ekki í lokin og ég er frekar svekktur að fara ekki með þrjú stig héðan í dag,“ sagði hann.
Helgi var hársbreidd frá því að skora sigurmark Víkings í uppbótartíma en Stefán Þór Ágústsson varði glæsilega.
„Eftir að ég sneri mér við hélt ég að boltinn væri að fara inn, því ég fann snertinguna. Þeir búast ekki við svona skalla en hann varði þetta vel.“
Helgi skoraði mark Víkings úr víti. Gylfi Þór Sigurðsson leyfði Helga að taka vítið í þetta skiptið.
„Ég spurði Gylfa hvort hann vildi taka vítið en hann sagði mér að taka það. Gylfi er toppmaður og öruggur á punktinum. Ég fékk að taka það í kvöld og við sjáum hver tekur það næst,“ sagði hann.
Helgi spilaði sem vængbakvörður í dag og gerði vel í vörninni gegn áðurnefndum Jónatan.
„Hann er hörkuleikmaður sem hefur verið að spila vel. Mér fannst það takast vel því hann fékk ekki úr miklu að moða í kvöld,“ sagði Helgi.