Fram vann öruggan 3:0-sigur gegn nýliðunum í Aftureldingu í bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Fram er með sex stig í sjötta sæti deildarinnar en Afturelding er í níunda sæti með fjögur stig.
Viðureignin fór af stað með látum en strax á fyrstu mínútu fékk Magnús Þórðarson dauðafæri til að koma Fram yfir. Sigurpáll Melberg Pálsson átti slaka sendingu sem Fred Saraiva komst inn í og barst boltinn til Magnúsar sem var einn á móti markmanni en Jökull Andrésson varði frá honum.
Aðeins fimm mínútum síðar stangaði Kyle McLagan boltann í netið en Bandaríkjamaðurinn var rangstæður og markið stóð því ekki.
Á 20. mínútu náði Fram forystunni eftir mark frá fyrirliðanum Kennie Chopart. Vuk Oskar Dimitrijevic átti góða fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Kennie mætti á ferðinni og stangaði boltann í netið.
Aðeins stundarfjórðungi seinna tvöfaldaði Kyle McLagan forystu Framara. Fyrirgjöf Haralds Einar Ásgrímssonar fann McLagana aleinan á fjærstönginni sem lagði boltann í netið.
Jökull Andrésson markvörður Aftureldingar varði í tvígang vel í lok fyrri hálfleiks. Fyrst varði hann gott skot Fred og aðeins mínútu síðar gerði hann virkilega vel í því að verja skalla Magnúsar.
Staðan var 2:0 fyrir Fram í hálfleik.
Elmar Kári Enesson Cogic var nálægt því að minnka muninn fyrir Aftureldingu snemma í síðari hálfleik. Elmar Kári gerði vel í erfiðri stöðu í teignum og lyfti boltanum yfir Viktor Frey Sigurðsson markvörð Fram en Kennie var mættur á línuna og skallaði boltann frá.
Vuk Oskar Dimitrijevic bætti við þriðja marki Framara á 74. mínútu. Freyr Sigurðsson komst í gegn eftir að vinna boltann af Aroni Jónssyni í vörn Aftureldingar og lagði síðan boltann á Vuk sem skoraði í autt markið.
Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og lokaniðurstaðan var því 3:0-sigur Fram.