ÍBV vann góðan útisigur á Stjörnunni, 3:2, í fjórðu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á heimavelli Stjörnunnar í Garðabænum í kvöld.
Eftir leik er ÍBV komið með sjö stig í þriðja sæti en Stjarnan er með sex stig í sjötta sæti.
Omar Sowe kom ÍBV yfir á 20. mínútu með furðulegu marki. Þá fékk hann boltann frá Oliver Heiðarssyni og var í baráttunni við nokkra Stjörnumenn inn á miðjum teignum. Einhvern veginn rúllaði boltinn af Omari, eða einhverjum öðrum, lauslega í netið framhjá Árna Snæ Ólafssyni markverði Stjörnunnar, 0:1.
Eyjamenn héldu áfram að spila vel og á 32. mínútu tvöfaldaði Bjarki Björn Gunnarsson forystu þeirra. Þá fékk hann boltann rétt innan teigs eftir innkast og smellti honum sláin inn, 0:2.
Stjörnumenn minnkuðu hins vegar muninn fjórum mínútum síðar en þar var Sindri Þór Ingimarsson að verki. Hann fékk stutta sendingu frá Guðmundi Baldvin Nökkvasyni eftir aukaspyrnu og átti laust skot sem fór beint á Marcel Zapytowski markvörð Eyjamanna en rataði einhvern veginn í netið, 1:2.
Oliver kom síðan ÍBV í 3:1 á 78. mínútu. Þá fékk hann boltann frá Omari Sowe og keyrði upp hægra megin á vellinum. Oliver var gegn Sindra Þór og komst í skotstöðu, lét vaða og skoraði gott mark.
Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu að koma sér aftur í leikinn eftir mark Olivers og fékk Samúel Kári Friðjónsson dauðafæri til þess á 85. mínútu en setti boltann framhjá.
Sindri Þór skoraði síðan sitt annað mark undir blálok leiks þegar hann setti boltann í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu, 2:3, en það reyndist of seint.
Stjarnan heimsækir Aftureldingu í næstu umferð en ÍBV fær Vestra í heimsókn.