Fram náði í dag í sín fyrstu stig í Bestu deild kvenna í knattspyrnu með því að sigra Austfjarðaliðið FHL í nýliðaslag í Úlfarsárdalnum, 2:0.
Fram er þar með þrjú stig eftir fjórar umferðir en FHL situr eftir á botninum, án stiga.
Fram hóf leikinn af miklum krafti og strax á 4. mínútu skoraði Sara Svanhildur Jóhannsdóttir með skalla eftir fyrirgjöf Öldu Ólafsdóttur frá hægri, 1:0.
Framarar juku forskotið á 13. mínútu þegar Alda fékk boltann frá Unu Rós Unnarsdóttur í miðjum vítateig, upp úr hornspyrnu, og sendi hann í hægra hornið, 2:0.
Framliðið réð lögum og lofum á vellinum fyrstu 25 mínúturnar og lið FHL sá vart til sólar í vorblíðunni í Úlfarsárdal.
Úr því rættist þó smám saman og Austfirðingar voru sterkari aðilinn síðasta korter hálfleiksins. Hope Santaniello skaut framhjá markinu úr dauðafæri á 28. mínútu og besta færið kom 44. mínútu þegar Aida Kardovic átti hörkuskalla eftir aukaspyrnu Calliste Brookshire frá vinstri en Elaina LaMaccia í marki Fram varði vel í horn. Staðan var því 2:0 í hálfleik.
FHL var heldur sterkara lengi vel í seinni hálfleik og Alexia Czerwien var næst því að minnka muninn á 55. mínútu þegar hún skallaði yfir mark Fram eftir aukaspyrnu frá Calliste.
Eftir það var leikurinn í nokkru jafnvægi og liðin fengu ágæt hálffæri til skiptis. FHL skorti ávallt herslumuninn til að koma sér í opin færi og sigur Framara var aldrei í teljandi hættu. Christa Björg Andrésdóttir fékk besta færið í uppbótartíma þegar hún skallaði yfir mark Fram eftir fyrirgjöf frá Calliste.
M-gjöfin úr leiknum og einkunn dómara birtast í Morgunblaðinu á mánudaginn.