Ingvar Jónsson, markvörður Víkings úr Reykjavík, kveðst ekki reikna með því að vera alvarlega meiddur eftir að hann neyddist til þess að fara af velli í 3:2-sigri á Fram í Bestu deildinni í knattspyrnu í gærkvöldi.
„Þetta var bara einhver stífleiki framan í læri sem fór ekki þannig ég tók enga sénsa. Ég held að ég sé ekki tognaður og býst ekki við að þetta sé alvarlegt.
Ég býst ekki við að þetta sé langur tími. Stefnan er að vera klár í næsta leik,“ sagði Ingvar í samtali við Vísi.
Hann fór af velli á 78. mínútu og lék varamarkvörðurinn Pálmi Rafn Arinbjörnsson síðustu mínúturnar. Næsti leikur Víkings er á heimavelli gegn FH í Bestu deildinni á sunnudag.