Fylkir tyllti sér á toppinn í 1. deild kvenna í knattspyrnu með því að vinna dramatískan sigur á Grindavík/Njarðvík, 3:2, í annarri umferð deildarinnar í Árbænum í kvöld.
Fylkir er með sex stig á toppnum og Grindavík-Njarðvík er í fimmta sæti með þrjú stig.
Grindavík/Njarðvík náði forystunni eftir aðeins sjö mínútna leik þegar Tinna Hrönn Einarsdóttir skoraði laglegt mark; vinstra fótar skot hægra megin úr vítateignum sem hafnaði í samskeytunum fjær.
Á 34. mínútu jafnaði Bergdís Fanney Einarsdóttir metin fyrir Fylki með marki úr vítaspyrnu.
Marija Radojicic kom Fylki svo yfir aðeins tveimur mínútum síðar með glæsilegu skoti úr vítateignum sem fór í þverslána og inn.
Í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Emma Phillips metin fyrir gestina með góðum skalla eftir fyrirgjöf úr aukaspyrnu af vinstri kanti.
Þegar virtist stefna í jafntefli skoraði Fylkir sigurmarkið einni mínútu fyrir leikslok. Það gerði Eva Stefánsdóttir eftir glæsilegan sprett fram völlinn og hnitmiðað skot vinstra megin úr vítateignum sem fór niður í hægra hornið.
Keflavík og KR skildu jöfn í Keflavík, 2:2, þar sem sömuleiðis var mikil dramatík.
KR er í þriðja sæti með fjögur stig og Keflavík er í áttunda sæti með eitt stig.
Keflavík náði forystunni um miðjan fyrri hálfleikinn þegar Íris Grétarsdóttir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.
Á 71. mínútu kom Olivia Simmons heimakonum í Keflavík í 2:0 og útlitið orðið gott.
KR-ingar gáfust hins vegar ekki upp því Íris, sem áður hafði skorað sjálfsmark, minnkaði muninn fyrir KR.
Á fjórðu mínútu uppbótartíma jafnaði Maya Neal svo metin fyrir Vesturbæinga og tryggði dramatískt jafntefli.
ÍA fékk Aftureldingu í heimsókn í Akraneshöllina og hafði betur, 2:0.
ÍA er í sjötta sæti með þrjú stig en Afturelding er í níunda sæti án stiga.
Elizabeth Bueckers og Erna Björt Elíasdóttir skoruðu mörk Skagakvenna í fyrri hálfleik.
HK vann þá hádramatískan sigur á Haukum, 1:0, í Kórnum.
Elísa Birta Káradóttir skoraði sigurmark HK úr vítaspyrnu á fimmtu mínútu uppbótartíma.
HK er í öðru sæti með sex stig og Haukar eru í sjöunda sæti með þrjú.