„Viljinn! Ég var mjög ánægður með stelpurnar,“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA, í samtali við mbl.is eftir 5:2-sigur gegn FHL í fimmtu umferð í Bestu deild kvenna í fótbolta á Reyðarfirði í kvöld.
„Við sýndum baráttuvilja og sigurvilja gegn erfiðu FHL liði. FHL er mjög skemmtilegt lið sem á leikmenn sem gætu byrjað í liðum um alla deild. Ef þú passar þig ekki getur maður lent í bölvuðum vandræðum á móti þeim. Við döðruðum alveg við það í dag því þær gera hlutina svo vel í því sem þær eru góðar í.
Sem betur fer var mitt lið tilbúið og vildi þetta og vorum við alltaf aðeins ofan á. Undir lokin náðum við að sigla þessu,“ svaraði Jóhann er hann var spurður að því hvað hefði staðið upp úr í leiknum í kvöld.
Þór/KA hafði ekki unnið í seinustu tveimur leikjum á undan þessum og fengið á sig sex mörk.
„Færin koma mjög mismunandi og stundum skorar þú og stundum ekki. Á meðan við erum að skapa öll þessi færi, t.d. töpuðum við gegn FH en vorum ofan á og vorum með betri marktækifæri.
Ef þú klúðrar þeim getur þú kastað þessu frá þér á stuttum tíma ef þú gleymir að klára færin og gefur hinu liðinu séns,“ sagði Jóhann um færin og mörkin í síðustu leikjum.
FHL skoraði tvö mörk í leiknum og hefur Þór/KA verið að fá á sig mikið af mörkum.
„Þá getum við kastað þessu frá okkur á stuttum tíma. Við sváfum á verðinum í smá stund og okkur var refsað en eins gott að við vorum betri í lengri tíma. FHL lítur vel út og það styttist í að þær vinni sinn fyrsta leik,“ sagði Jóhann um mörk FHL.