Knattspyrnuvöllurinn í Grindavík var metinn öruggur til æfinga og keppni á samráðs- og upplýsingafundi í Grindavík síðastliðinn mánudag.
Á fundinum sátu meðal annars fulltrúar Grindavíkurbæjar, Grindavíkurfélagsins, KSÍ, Íslensks toppfótbolta, slökkviliðsins, lögreglu, öryggisstjóri vettvangsstjórnar í Grindavík og jarðfræðingar frá Eflu og ÍSOR.
Á fundinum voru lögð fram nýjustu gögn og niðurstöður jarðsjármælinga fyrir keppnis- og æfingasvæði knattspyrnudeildar Grindavíkur. Gögnin sýna að ekkert bendi til hættu á yfirborði vallarins.
Jarðfræðingar sem hafa metið svæðið staðfesta að berggrunnurinn á svæðinu sé stöðugur og gripið hafi verið til viðeigandi öryggisráðstafana þar sem sprungur eru nálægt íþróttasvæðinu.
Grindavík fær Fjölni í heimsókn á heimavöll sinn á laugardaginn í annarri umferð 1. deildar karla.