Valur tapaði dýrmætum stigum á heimavelli sínum gegn Þrótti í 5. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Valur er með 7 stig eftir fyrstu 5 leikina í deildinni. Kristján Guðmundsson þjálfari Vals sagði að í umbreytingarferli töpuðust stig inn á milli.
Spurður út í leikinn sagði hann þetta:
„Við eigum góðan kafla í fyrri hálfleik og skorum mark. Við hefðum getað skorað aftur í næsta horni á eftir. Munaði ekki miklu þar. Síðan eigum við þessi tvö færi í sömu sókninni sem voru mjög örlagarík. Það hefði verið hægt að spila restina af leiknum með öðrum hætti ef við hefðum skorað annað mark. Þessi kafli hefði þurft að gefa meira.
Það gekk nokkuð vel upp það sem við lögðum upp með og hlutirnir voru að ganga upp hjá okkur. Síðan jafna þær í fyrri hálfleik. Það er mjög sérstakt hvernig við verjumst inni í teig í þessum mörkum. Ég hef ekki séð þetta áður hjá mínu liði.
Við fáum mark í andlitið strax í byrjun seinni hálfleiks og það var mikið sjokk sem tók tíma að jafna sig á. Við gerum breytingar til að hressa þetta upp og það kemur þarna kafli sem er jákvæður og við fáum færi til að jafna, sérstaklega þegar Natasha kemst í skotfæri.“
Fimm umferðir eru búnar og Valur er með 7 stig. Er það ásættanlegt á Hlíðarenda?
„Við erum í þessu umbreytingarferli. Það er rót á liðinu og kannski ekkert skrýtið að það komi svona úrslit inn á milli. Þetta er kannski ekki eitthvað sem er vaninn ef við horfum á undanfarin ár. Við höfum það samt alveg á hreinu að það sættir sig enginn við þetta tap.“
Næsti leikur í bikar á móti Fram og svo er leikur gegn Breiðabliki í deildinni. Hvernig sérðu þau verkefni fyrir þér?
„Við leggjum upp með að vinna Fram og reynum það. Síðan þurfum við að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn Breiðablik. Það verður líklega spennandi leikur ef við horfum bara í þessa tvo leiki sem við spiluðum við þær í vor.
Akkúrat núna þessa vikuna eru Blikarnir langt á undan okkur í deildinni. Ef við ætlum að vera með í toppbaráttunni þá þurfum við að taka eitthvað verulega gott og bitastætt út úr þeim leik,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is.