Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu enn einn sannfærandi sigurinn í Bestu deild kvenna í knattspyrnu, nú gegn Tindastóli, 5:1, á Sauðárkróki í dag.
Breiðablik er í toppsæti deildarinnar með 13 stig og nú búið að skora 24 mörk í fimm leikjum. Tindastóll er í áttunda sæti með þrjú stig.
Birgitta Rún Finnbogadóttir kom Tindastóli yfir á 15. mínútu leiksins en þá vann hún boltann af Elínu Helenu Karlsdóttur og skoraði síðan framhjá Telmu Ívarsdóttur, 1:0.
Breiðablik skoraði hins vegar tvö mörk á þremur mínútum, það fyrra á 27. mínútu þökk sé Birtu Georgsdóttur eftir sendingu frá Andreu Rut Bjarnadóttur, 1:1, og það seinna skoraði Berglind Björg Þorvaldsdóttir þegar hún negldi boltanum í netið eftir að hann barst til hennar, 1:2 sem voru hálfleikstölur.
Breiðablik bætti við þremur mörkum í seinni hálfleik. Andrea Rut skoraði fyrsta eftir sendingu frá Samönthu Smith, Berglind Björg annað eftir sendingu frá Andreu Rut og varamaðurinn Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir þriðja og síðasta þegar hún hljóp upp meira en hálfan völlinn og skoraði snyrtilegt mark, 1:5.
Tindastóll heimsækir Víking R. í næstu umferð en Breiðablik fær bikarmeistara Vals í heimsókn. Þar á milli eru bikarleikir en Tindastóll heimsækir Stjörnuna og Breiðablik FHL í 16-liða úrslitunum.