Reykjavíkurliðin Valur og Þróttur áttust við í 5. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta á Hlíðarenda í dag og lauk leiknum með sigri Þróttar 3:1.
Eftir leikinn er Valur með 7 stig og Þróttur er í toppbaráttu með 13 stig, jafnmörg og Breiðablik á toppi deildarinnar.
Valskonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og fóru strax að hóta marki. Á 15. mínútu leiksins skoraði Lillý Rut Hlynsdóttir með skalla eftir hornspyrnu frá Önnu Rakel Pétursdóttur.
Þremur mínútum seinna þurfti Mollee Swift að taka á honum stóra sínum þegar hún varði tvívegis frá Val. Fyrra skotið kom frá Jordyn Rhodes sem slapp ein inn fyrir vörn Þróttar en Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir fylgdi skoti hennar eftir en Mollee varði aftur.
Þórdís Elva Ágústsdóttir jafnaði metin á 35. mínútu leiksins eftir fyrirgjöf frá Mist Funadóttur. Staðan var 1:1. Eftir þetta sótti Þróttur harðar að marki Vals og munaði minnstu að gestirnir kæmust yfir fyrir hálfleik
Staðan í hálfleik var 1:1.
Það voru ekki nema 22 sekúndur liðnar af seinni hálfleik þegar Þróttur komst yfir í leiknum. Höfum það í huga að það var Valur sem tók miðjuna í seinni hálfleik. Unnur Dóra Bergsdóttir gaf boltann fyrir markið eftir skyndisókn og Freyja Karín Þorvarðardóttir skoraði með skalla. Staðan var 2:1 fyrir Þrótt.
Eftir þetta róaðist leikurinn mikið. Valur var meira með boltann en náði lítið að skapa sér færi. Á 75. mínútu komst Natasha Anasi í dauðafæri en skot hennar var varið í horn.
Þróttur jók forystuna á 80. mínútu þegar Þórdís Elva Ágústsdóttir gaf boltann glæsilega fyrir markið og þar mætti María Eva Eyjólfsdóttir sem skaut föstu skoti upp í þaknetið. Staðan 3:1 fyrir Þrótt.
Valskonur reyndu hvað þær gátu til að minnka muninn en allt kom fyrir ekki og lauk leiknum með sanngjörnum sigri Þróttar.