„Við hefðum bara þurft að gera betur í fyrirgjöfunum þeirra,” sagði sagði Rósey Björgvinsdóttir, fyrirliði FHL, í samtali við mbl.is eftir 5:2-tap gegn Þór/KA í fimmtu umferð í Bestu deildinni í fótbolta í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði í kvöld.
FHL hefur verið í vandræðum að skora á tímabilinu en einnig verið í vandræðum með að halda boltanum úr eigin neti.
„Ef ég man rétt var allt að koma úr fyrirgjöfum þannig við þurfum í raun bara að bæta okkur sem lið að verjast því. Við vorum sofandi á verðinum í nánast öll skiptin og vorum ekki grimmar í teignum,” sagði Rósey um varnarleikinn.
„Já, fyrirgjafirnar hafa verið vesen en sömuleiðis er mikið um einstaklingsmistök. Mér finnst ekkert endilega liðin á móti okkur vera að gera frábæra hluti. Við höfum í raun bara verið að gefa hlutina í hendurnar á þeim frekar en þær væru eitthvað að gera frábæra hluti. Þannig að við þurfum bara að bæta okkur í þessum mistökum og bæta varnarleikinn í heild. Mér finnst við vera að gera góða hluti fram á við en ekki að klára færin okkar,” sagði Rósey um málin hjá liðinu eftir fyrstu fimm umferðir í Bestu deildinni.