FH tók á móti Stjörnunni í 5. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Kaplakrikvelli í Hafnarfirði í kvöld og lauk leiknum með sigri FH 2:1.
Eftir leikinn er FH með 13 stig og náði Breiðabliki og Þrótti á toppi deildarinnar en Stjarnan er með 6 stig.
Fyrri hálfleikur var að mestu frekar bragðdaufur. Fyrsta færi leiksins kom á 13. mínútu þegar Birna Kristín Björnsdóttir skaut að marki talsvert fyrir utan teig Stjörnunnar. Skotið var hátt og stefndi inn en Vera Varis náði að blaka boltanum aftur fyrir og í hornspyrnu.
Á 32. mínútu gerðu varnarmenn FH sig seka um slæm mistök þegar þær misstu boltann í fæturnar á Úlfu Dís Kreye Úlfarsdóttur sem þakkaði fyrir sig með því að skora undir fæturnar á Aldísi Guðlaugsdóttur í marki FH. Staðan 1:0 fyrir Stjörnuna sem reyndust hálfleikstölur.
Seinni hálfleikur var mun líflegri en sá fyrri.
FH byrjaði strax að hóta marki og var Maya Hansen nálægt því strax á 48. mínútu en hitti boltann illa. Birna Kristín Björnsdóttir skoraði hins vegar stórglæsilegt mark á 53. mínútu eftir sendingu frá Erlu Sól Vigfúsdóttur. Skaut Birna boltanum af ca. 25 metra færi beint upp í samskeytin. Mun þetta mark líklega koma til greina sem eitt af mörkum sumarsins.
FH komst yfir á 60. mínútu. Maya Hansen skoraði þá fallegt mark eftir sendingu frá Thelmu Karen Pálmadóttur. Staðan var 2:1 fyrir FH.
Jessica Ayers átti frábært skot að marki FH á 76. mínútu og undir venjulegum kringumstæðum hefði boltinn sungið í netinu. Það gerðist ekki því Aldís Guðlaugsdóttir varði alveg stórkostlega í horn.
Hafnfirðingar voru mun betri í framhaldinu og fengu fjöldann allan af skotfærum en Vera Varis stóð sig vel í marki Stjörnunnar og varði oft og tíðum mjög vel.