Víkingur úr Reykjavík mun formlega opna Lárustofu til heiðurs Láru Herbjörnsdóttur fyrir leik liðsins gegn Fram í fimmtu umferð Bestu deildar kvenna í kvöld.
Lárustofa verður formlega opnuð klukkan 17.30 og verður fjölskylda Láru viðstödd opnunina og hefst síðan leikurinn klukkan 18.
Lára Herbjörnsdóttir var einn dyggasti stuðningsmaður Víkings og fylgdi liðinu í gegnum súrt og sætt.
„Amma Víkingur mætti á völlinn og studdi félagið sama hvernig gengi liðsins var enda skiptir öllu máli að styðja sitt félag sama hvort með eða á móti blæs.
Knattspyrnudeild Víkings er það mikill heiður að fjölskylda Láru verði viðstödd opnunina í kvöld og hvetjum við alla Víkinga nær og fjær að koma í Hamingjuna í kvöld. Við hlökkum til að eiga þessa stund saman þegar Lárustofa fær loksins nafnið sitt og minning einstakrar félagskonu verður heiðruð,“ stendur í tilkynningu frá Víkingum.
Í viðtali við mbl.is árið 2008 sagði Lára að Víkingur væri á uppleið og þó að nokkur ár liðu á milli reyndist það rétt.
Karlalið Víkings hefur unnið tvo Íslandsmeistaratitla og fjóra bikarmeistaratitla á síðustu árum og kvennaliðið varð bikarmeistari sem lið í B-deild sumarið 2023 og náði góðum árangri í Bestu deildinni sem nýliði í fyrra.