Þróttarar gerðu góða ferð til Keflavíkur í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld og sóttu þangað þrjú stig en HK og ÍR skiptu með sér stigum í Kórnum í Kópavogi.
Þróttur og ÍR eru því komin með fjögur stig eftir tvo leiki, Keflavík er með þrjú stig og HK er með tvö stig eftir tvö jafntefli.
Liam Daði Jeffs skoraði sigurmark Þróttara á 83. mínútu, 1:0, en þeir voru manni fleiri allan síðari hálfleikinn eftir að Nacho Heras, varnarmaður Keflvíkinga, fékk tvö gul spjöld undir lok fyrri hálfleiks.
Skoski miðvörðurinn Marc McAusland, fyrirliði ÍR, kom sínum mönnum yfir gegn HK í Kórnum með skalla eftir hornspyrnu á 39. mínútu.
Dagur Orri Garðarsson náði að jafna metin fyrir HK á 82. mínútu eftir mistök í vörn Breiðhyltinga og lokatölur 1:1.