KR vann öruggan sigur á ÍBV, 4:1, í sjöttu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Þróttarvellinum í Laugardal í kvöld.
Með sigrinum fór KR upp í annað sæti deildarinnar þar sem liðið er með tíu stig. ÍBV er áfram í fimmta sæti með sjö stig.
Alexander Rafn Pálmason var í byrjunarliði KR og varð þar með yngsti leikmaður sem byrjar leik í sögu efstu deildar, 15 ára og 33 daga gamall. Fyrsta mark leiksins kom eftir aðeins átta mínútna leik og var það sögulegt enda skoraði Alexander Rafn það.
Hjalti Sigurðsson átti þá góða fyrirgjöf af hægri kantinum, Milan Tomic í vörn ÍBV skallaði frá en beint á Alexander Rafn sem tók eina snertingu og þrumaði boltanum svo glæsilega á lofti upp í nærhornið vinstra megin úr vítateignum.
Hann varð þannig yngsti markaskorari í sögu efstu deildar karla en fyrra met átti Eiður Smári Guðjohnsen, sem hann setti árið 1994. Þá var Eiður Smári 15 ára og 253 daga gamall.
KR náði þá fínni stjórn á leiknum og fékk fjölda hornspyrna sem liðinu tókst þó ekki að gera sér mat úr. Um miðjan fyrri hálfleik átti Jóhannes Kristinn Bjarnason fína tilraun rétt við D-bogann eftir sendingu Alexanders Rafns en Marcel Zapytowski varði vel.
Í næstu sókn var Omar Sowe við það að sleppa í gegn, Halldór Snær Georgsson í marki KR fór langt út fyrir eigin vítateig og hreinsaði en í Sowe. Hann sótti boltann á vinstri kantinn, lék með hann inn í vítateig og tók loks skot úr við markteiginn en það fór í nærstöngina áður en KR-ingar hreinsuðu í hornspyrnu.
Eyjamenn tóku hornspyrnuna stutt, Bjarki Björn Gunnarsson fékk boltann aftur og gaf fyrir af hægri kantinum, fann þar Sigurð Arnar Magnússon einan á auðum sjó fyrir miðjum vítateignum og hann skallaði af öryggi í markið. Staðan því orðin 1:1 á 24. mínútu.
Eftir rúmlega hálftíma leik datt boltinn óvænt fyrir Matthias Præst hægra megin í markteignum, hann tók skotið en það fór framhjá fjærstönginni. Fimm mínútum síðar, á 37. mínútu, náðu KR-ingar forystunni á ný.
Luke Rae gerði þá frábærlega á hægri kantinum er hann fór auðveldlega framhjá Vicente Valor og renndi boltanum út í vítateiginn á Præst sem skaut að marki úr algjöru dauðafæri, Zapytowski varði frábærlega af stuttu færi en hélt ekki boltanum og Eiður Gauti Sæbjörnsson var fljótur að átta sig og potaði boltanum í netið áður en Eyjamenn náðu til hans.
Staðan þá orðin 2:1 og voru það hálfleikstölur.
Síðari hálfleikur hófst fjörlega þar sem hinn 15 ára gamli Alexander Rafn fékk tækifæri til þess að skora sitt annað mark eftir tæplega mínútu leik. Jóhannes Kristinn kom boltanum þá á hann vinstra megin í vítateignum, Alexander Rafn tók eina snertingu og reyndi svo innan fótar skot úr góðu færi en það fór framhjá markinu.
Á 53. mínútu fékk ÍBV kjörið tækifæri til þess að jafna metin í annað sinn. Aron Þórður Albertsson missti þá boltann á eigin vallarhelmingi, Sowe sendi Þorlák Breka Baxter einan í gegn, hann var kominn í afar góða stöðu vinstra megin í vítateignum, skaut með vinstri en Finnur Tómas Pálmason gerði frábærlega í að renna sér fyrir skotið.
Stuttu síðar átti Aron Þórður frábæra tilraun fyrir KR-inga þegar skot hans á lofti fyrir utan vítateig stefndi í hornið en Zapytowski varði frábærlega aftur fyrir.
Eftir rúmlega klukkutíma leik geystist Oliver Heiðarsson fram hægri kantinn, lék með boltann inn í vítateig og tók skot á nærstöngina en Halldór Snær varði aftur fyrir.
Í næstu sókn fékk Ástbjörn Þórðarson færi fyrir KR í svipaðri stöðu og Oliver hinum megin en Ástbjörn þrumaði boltanum yfir markið.
Oliver gerði sig aftur líklegan stuttu síðar, á 65. mínútu, þegar Felix Örn gerði frábærlega í að halda langri og fastri sendingu inni á vellinum við hornfánann vinstra megin, kom boltanum á Oliver sem átti lúmskt skot úr þröngri stöðu vinstra megin í markteignum en Halldór Snær varði vel aftur fyrir.
Mínútu síðar slapp Sowe einn í gegn með Finn Tómas í eftirdragi, Sowe tók skotið við vítateigslínuna undir pressu miðvarðarins en það fór framhjá markinu.
Eftir þetta áhlaup Eyjamanna róaðist leikurinn nokkuð en undir lokin gerði KR út um leikinn. Átta mínútum fyrir leikslok kom Præst boltanum á Ástbjörn Þórðarson sem var einn á auðum sjó hægra megin í vítateignum, tók laust skot sem Zapytowski varði með fótunum en boltinn lak svo í netið, 3:1.
Fjórum mínútum síðar kom svo fjórða mark KR-inga. Ástbjörn átti þá góðan sprett hægra megin í vítateignum, tók skotið en Zapytowski varði. Eiður Gauti var vitanlega mættur eins og hreinræktaði framherjinn sem hann er og tók skot af stuttu færi, aftur varði Zapytowski en Eiður Gauti skoraði svo í þriðju tilraun KR-inga í sókninni.
Sigurinn var þá endanlega í höfn og reyndust 4:1 lokatölur.