Vestri tók á móti Aftureldingu í fyrsta leik sjöttu umferðar Bestu deildar karla í knattspyrnu á Ísafirði í dag. Leikar enduðu með 2:0-sigri Vestra. Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra var kátur eftir leik og hafði þetta að segja:
„Sterkur sigur, sigur liðsheildarinnar og góðs varnarleiks. Leikurinn í heild sinni var ekkert sérstakur en það þarf líka að vinna þessa leiki. Orkan var ekki næg í dag í liðinu og ég verð að taka það á mig, ég hef ekki gefið neitt frí frá síðasta leik. Það útskýrir eitthvað en samt var margt gott í þessum leik, þótt ég sé ekki 100% ánægður meðan. Frábær innkoma hjá varamönnum, Arnór Borg var frábær í fyrsta leik, ofboðslegur kraftur og skoraði mark í sínum fyrsta leik. Það var margt frábært og margt sem er hægt að laga.“
Er ekki ánægjuefni að eiga svona leik og vinna?
„Jú, ég held að það sé allt í lagi að segja það. Það vantaði takt í þessu hjá okkur og sérstaklega í lok fyrri hálfleiks. Aðeins meiri orka í seinni hálfleik, en eins og ég segi ekki okkar besti dagur en við siglum þessu heim.“