Afturelding mátti þola 2:0-tap gegn Vestra í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag. Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar mætti í viðtal eftir leikinn og hafði þetta að segja:
„Ég er svekktur, mér fannst frammistaðan á löngum köflum allt í lagi en á augnablikunum í leiknum þar sem þeir skora þessi mörk verjumst við ekki nógu vel, það er ekki gott. Ég vil óska Vestra til hamingju með sigurinn, þeir vörðust vel og nýttu sínar sóknir betur en við. Að sama skapi þurfum við að líta inn á við og gera betur í sóknarleiknum okkar.
Svo finnst mér við eiga meiri virðingu skilið frá dómurunum. Þetta er annar útileikurinn í röð, við spiluðum við Fram um daginn, við vildum fá tvær vítaspyrnur og þeir skora kolólöglegt mark. Í dag eigum við skilið að fá tvær vítaspyrnur, ein í fyrri hálfleik þegar brotið var á Aroni og síðan fór boltinn í hendina á Vestramanninum hérna í seinni hálfleik. Auðvitað litar þetta leikinn.
Við erum komnir í deild þeirra bestu og eigum skilið meiri virðingu en þetta, að mínu mati. Við munum líta inn á við og þurfum að gera betur í leikjunum, skorum ekki í dag og ekki á móti Fram um daginn. Það er samt súrt að koma eftir leik og sjá að lykilatriðin eru hreinlega vitlaus.
Ég veit að það er að fara koma VAR til Íslands og vonandi sem fyrst. Því þetta eru lykilaugnablik sem breyta leikjunum. Vestra-menn voru góðir og verðskulduðu sigurinn en við hefðum kannski verið í jafnari stöðu ef við hefðum fengið víti í fyrri hálfleik.“
Þið spilið ágætisleik og Vestri á bara tvö skot á markið í leiknum, en það er einhvern veginn allt næstum því í sókninni. Ertu sammála því?
„Já, ég er sammála því að það vantar herslumuninn. Það er það sem við þurfum að bæta okkur í, við munum leita leiða til að bæta okkur í því. En við þurfum líka að fá meiri virðingu, það eru tvö mjög keimlík atriði í fyrri hálfleik þar sem þeir fá víti en við ekki. Mér finnst það dýrt og svekkjandi, en svona er þetta.“