Með skynsemi að vopni í bland við smá heppni vann ÍBV 4:2 sigur á KR þegar liðin mættust í 16-liða bikarkeppni karla í knattspyrnu á heimavelli Þróttar í Laugardal í kvöld.
KR var meira með boltann og réði mest á miðjunni en Eyjamenn voru með þétta vörn og öfluga framlínu þar sem Oliver Heiðarsson og Omar Sowe hrelldu KR-inga hressilega. Hefndin var sæt því KR vann ÍBV fyrir nokkrum dögum síðan í deildinni á sama velli, 4:1.
Vesturbæingar ætluðu sér að ná strax undirtökunum og gerðu það en tókst ekki að búa til dauðafærið á meðan Eyjamenn reyndu að halda þéttri vörn og bíða svo eftir góðri skyndisókn. Þetta gekk allt aftur, KR-ingar mun hættulegri en Oliver Heiðarsson og Omar Sowe sáu að mestu um að hrella vörn KR í snöggum sóknum.
Mark lá svo sem í loftinu og á 24. mínútu fékk Atli Sigurjónsson upplagt færi en Hjörvar Daði Arnarsson markmaður ÍBV varði af stuttu færi.
Hann sá þó ekki við Atla á 29. mínútu, sem fékk frábæra sendingu Arons Þórðar Albertssonar upp hægri kantinn inn í vítateiginn og lyfti boltanum fyrir Hjörvar í markinu. Frábær afgreiðsla og KR komnir í 1:0.
Gleðin stóð þó aðeins yfir í þrjár mínútur því á þeirri 32. var Þorlákur Breki Baxter með boltann rétt utan við vítateig KR, sendi svo inn í vítateig hægra megin þar sem Oliver Heiðarsson kom á fullri ferð og þrumaði upp í þaknetið. Staðan jöfn, 1:1.
Næsta góða færi var Vestmanneyingar þegar Oliver fékk góða sendingu upp völlinn, hristi af sér varnarmann KR en Halldór Snær Georgsson markmaður KR kom vel út á móti. Góður sprettur en samt enn betur varið.
Síðari hálfleikur byrjaði á svipuðum nótum og sá fyrri nema núna byrjuðu Eyjamenn strax að herja á heimamenn og Omar Sowe var tvisvar mjög nálægt því að skora eftir snögga sókn en tókst ekki.
Á 64. mínútu gekk snögg sókn ÍBV eftir þegar Omar Sowe fékk boltann alveg út við hægra kant og sendi þvert inná völlinn þar sem Hermann Þór Ragnarsson kom á fleygiferð og skaut vandlega framhjá markverði KR. Staðan 1:2.
KR-ingum var brugðið en héldu áfram og byrjuðu að láta Vestmannaeyinga hafa nóg að gera. Eftir þrumuskot Alexanders Rafns Pálmasonar og annað frá Ástbirni í 72. mínút fékk KR horn og úr því skoraði Guðmundur Andri Tryggvason af stuttu færi, staðan 2:2.
Þegar virtist sem KR væri að taka leikinn alveg sínar hendur tóku Eyjamenn við sér og á 81. mínútu fékk Oliver að skeiða upp hægri kantinn og á móts við markteigshornið, renndi hann boltanum þvert á Omar, sem skaut og þó Halldór í marki KR næði að koma við boltann var það ekki nóg. Staðan 2:3.
Eyjamenn voru komnir á bragðið og eftir vandræðagang í vörn KR á 90. mínútu, fékk Oliver boltinn í miðjum vítateig KR og honum brást ekki bogalistinn þegar hann þrumaði undir markmann KR. Staðan 2:4 og bara uppbótartími eftir.
Heimamenn, þó það sé skrýtið að segja KR heimamenn á heimavelli Þróttar, voru betri og höfðu góð tök á vellinum þar sem Hjalti Sigurðsson og Finnur Tómas Pálmason fóru fyrir vörninni, Alexander Helgi Sigurðsson og Aron Þórður Albertsson voru góðir á miðjunni en sá síðarnefndi þurfti að fara meiddur aftur hálftíma leik. Það var svo Atli, sem skapaði mestu hættuna með góðum sprettum upp hægri kantinn.
Hjá gestunum úr Eyjum bar mest á Omar Sowe þegar hann var að hrella vörn KR en Oliver var þó meira á ferðinni og skapaði meiri hættu. Sigurður Arnar Magnússon og Mattias Edeland voru í miðri vörninni og náðu að koma í veg fyrir að KR-ingar slyppu svo auðveldlega í gegn.