„Við réðum bara ekki við Omar Sowe og það varð okkar banabiti í dag,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari KR eftir 2:4 tap fyrir ÍBV er liðin áttust við í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla í kvöld á Þróttaravellinum.
„Mér fannst margt ágætt í þessum leik og spiluðum eins og við spilum en það útheimtir að menn klári sig einn á móti einum en við réðum ekki við Omar og því fór sem fór.“
KR vann ÍBV 4:1 fyrir fjórum dögum en þjálfarinn sagði það ekki hafa áhrif. „Sá leikur skipti engu máli, nýr dagur og nýr leikur svo hann hafði enga þýðingu en þessi leikur þróaðist aðeins öðruvísi en leikurinn í deildinni því Eyjamenn voru nú heldur beinskeittari og við verðum að geta staðið betur á móti þessum leikstíl. Það sem býður okkar er að læra af þessum leik. Enginn inni í klefanum hjá heldur að KR sé fullmótað lið og kunni allt og geti brugðist við öllu, bætti Óskar Hrafn við og það þurfi að halda áfram.
„Auðvitað er alltaf sárt að tapa í bikarnum og sárt að tapa fótboltaleikjum en þessi leikur mun nýtast okkur vel í lærdóm. Þetta er eins og svo margt annað – að læra að hjóla er að setjast á reiðhjól og detta en ef þú stendur ekki upp aftur þá lærir þú ekki að hjóla. Við þurfum nú að fara upp á reiðhjólið og halda áfram,“ bætti þjálfarinn við.