Keflvíkingar tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu með því að sigra Víking frá Ólafsvík, 5:2, á grasvellinum í Keflavík.
Mohamed Alghoul skoraði þrennu fyrir Keflvíkinga og þeir Ari Steinn Guðmundsson og Kári Sigfússon skoruðu sitt markið hvor.
Luis Romero og Kwame Quee skoruðu fyrir Ólafavíkinga sem voru með forystu, 2:1, um nokkurt skeið í fyrri hálfleiknum, eftir að Alghoul hafði skorað fyrsta mark leiksins á fjórðu mínútu.
Ari Steinn jafnaði fyrir Keflavík í lok fyrri hálfleiks og liðið gerði út um leikinn með þremur mörkum á fyrsta korteri síðari hálfleiks.
Alghoul skoraði þriðja mark sitt og fimmta mark Keflavíkur eftir að Jón Kristinn Elíasson markvörður Ólafsvíkinga hafði varið frá honum vítaspyrnu.