„Ég geri ráð fyrir því að heimaleikurinn gegn Frakklandi verði leikinn á nýjum Laugardalsvelli,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.
Ísland mætir Frakklandi og Noregi í lokaleikjum sínum í 2. riðli A-deildar Þjóðadeildarinnar en leikurinn gegn Noregi fer fram þann 30. maí í Þrándheimi á meðan leikurinn gegn Frakklandi fer fram 3. júní á Laugardalsvelli.
Íslenska liðið er með 3 stig í þriðja sæti riðilsins, stigi minna en Noregur sem er í öðru sætinu en Frakkland hefur nú þegar tryggt sér efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga eða 12 stig.
Verið er að leggja lokahönd á að leggja blendingsgras á völlinn en framkvæmdir við nýjan Laugardalsvöll hófust í október í fyrra og er stefnt að því að fyrsti leikurinn á nýjum velli verði leikur Íslands og Frakklands í Þjóðadeildinni.
„Öll okkar plön miðast að því að leikurinn fari fram á Laugardalsvelli en við erum með velli til vara ef að svo ólíklega vildi til að Laugardalsvöllur verði ekki orðinn leikfær,“ sagði Þorsteinn.
„Það er skemmtileg tilhugsun að fá að vígja völlinn og það er auðvitað búið að færa hann nær stúkunni sem ætti að gera þessa upplifun ennþá skemmtilegri. Vonandi flykkist fólk á völlinn og það verður gaman að upplifa það að hafa stúkuna og stuðningsmennina nær sér en maður er vanur.
Það er nýtt undirlag líka sem lítur vel út og völlurinn verður vonandi upp á sitt allra best. Stelpurnar eiga skilið að fá sem flesta á völlinn og vonandi verður hann fullur. Það myndi gefa liðinu aukaorku fyrir þennan mikilvæga leik,“ bætti Þorsteinn við í samtali við mbl.is.