Kvennalandsliðið á að vígja nýjan Laugardalsvöll

Þorsteinn Halldórsson ræðir við leikmenn íslenska liðsins eftir jafnteflið gegn …
Þorsteinn Halldórsson ræðir við leikmenn íslenska liðsins eftir jafnteflið gegn Sviss í Þjóðadeildinni í apríl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég geri ráð fyr­ir því að heima­leik­ur­inn gegn Frakklandi verði leik­inn á nýj­um Laug­ar­dals­velli,“ sagði Þor­steinn Hall­dórs­son, þjálf­ari ís­lenska kvenna­landsliðsins í fót­bolta, í sam­tali við mbl.is á blaðamanna­fundi ís­lenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í Laug­ar­dal í dag.

Ísland mæt­ir Frakklandi og Nor­egi í loka­leikj­um sín­um í 2. riðli A-deild­ar Þjóðadeild­ar­inn­ar en leik­ur­inn gegn Nor­egi fer fram þann 30. maí í Þránd­heimi á meðan leik­ur­inn gegn Frakklandi fer fram 3. júní á Laug­ar­dals­velli. 

Íslenska liðið er með 3 stig í þriðja sæti riðils­ins, stigi minna en Nor­eg­ur sem er í öðru sæt­inu en Frakk­land hef­ur nú þegar tryggt sér efsta sæti riðils­ins með fullt hús stiga eða 12 stig.

Verið er að leggja loka­hönd á að leggja blend­ings­gras á völl­inn en fram­kvæmd­ir við nýj­an Laug­ar­dalsvöll hóf­ust í októ­ber í fyrra og er stefnt að því að fyrsti leik­ur­inn á nýj­um velli verði leik­ur Íslands og Frakk­lands í Þjóðadeild­inni.

Von­ast eft­ir full­um velli

„Öll okk­ar plön miðast að því að leik­ur­inn fari fram á Laug­ar­dals­velli en við erum með velli til vara ef að svo ólík­lega vildi til að Laug­ar­dalsvöll­ur verði ekki orðinn leik­fær,“ sagði Þor­steinn.

„Það er skemmti­leg til­hugs­un að fá að vígja völl­inn og það er auðvitað búið að færa hann nær stúk­unni sem ætti að gera þessa upp­lif­un ennþá skemmti­legri. Von­andi flykk­ist fólk á völl­inn og það verður gam­an að upp­lifa það að hafa stúk­una og stuðnings­menn­ina nær sér en maður er van­ur.

Það er nýtt und­ir­lag líka sem lít­ur vel út og völl­ur­inn verður von­andi upp á sitt allra best. Stelp­urn­ar eiga skilið að fá sem flesta á völl­inn og von­andi verður hann full­ur. Það myndi gefa liðinu auka­orku fyr­ir þenn­an mik­il­væga leik,“ bætti Þor­steinn við í sam­tali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert