„Það var fátt sem skildi að,“ sagði Tryggvi Hrafn Haraldsson leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir að hann skoraði sigurmark liðsins í 2:1-sigri á Fram í lokaleik 10. umferðar Bestu deildarinnar í fótbolta á Hlíðarenda í kvöld.
„Mér fannst við vera með yfirhöndina framan af, við vorum meira með boltann, áttum fleiri skot og fleiri færi. Það er erfitt að spila á móti góðu Framliði. Við náðum að skora tvö ágætismörk og þetta var flottur sigur,“ sagði hann.
Mikið rok var á Hlíðarenda í kvöld og hafði það áhrif á leikinn.
„Það hjálpar ekki og við vissum fyrir leik að þetta yrði ekkert sérstaklega fallegt. Við reyndum að spila út eins og við gátum og láta þetta hafa lítil áhrif á okkur. Við náðum fínum spilköflum inn á milli en svo stoppar boltinn mikið í loftinu og það var erfitt að reikna flugið,“ sagði hann.
Sigurinn var sá þriðji í röð hjá Val eftir rólega byrjun á tímabilinu. Liðið er nú aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Víkings.
„Mér finnst ekki mikið hafa breyst. Við erum að loka leikjunum betur en í byrjun móts og í raun betur en síðustu ár. Mér finnst spilamennskan sem slík ekki endilega hafa batnað. Við áttum marga góða leiki sem við unnum ekki í byrjun móts. Úrslitin eru að detta núna en spilamennskan hefur ekki mikið breyst,“ sagði Tryggvi.
Markið hans í kvöld var skrautlegt en Frederik Schram í markinu lagði það upp með langri sendingu fram. Tryggi náði að vippa boltanum yfir Viktor Frey Sigurðsson í marki Fram og skalla boltann í autt markið.
„Ég upplifði þetta fyrst og fremst sem skallamark, ég skora ekki mikið af þeim. Freddi lagði upp mark á mig fyrr á tímabilinu og í fyrra. Hann veit að ég hleyp alltaf þessa leið og hann er með góða löpp. Varnarmaðurinn misreiknaði svo boltann sem hjálpaði mér,“ sagði hann.
Patrick Pedersen skoraði níunda markið sitt í sumar er hann kom Val í 1:0. Hann er markahæstur í deildinni og er Tryggvi næstur hjá Val með fimm mörk.
„Patrick er einn af þeim allra bestu sem hafa spilað í deildinni og það er ekkert nýtt hjá honum að skora mörk. Við erum með frábæra menn í kringum okkur og alvöru lið til að skora mörk. Það er gott að ná að skila sínu,“ sagði Tryggvi.