Þróttarar úr Vogum eru komnir á ný í efsta sæti 2. deildar karla eftir sigur á Haukum, 2:0, þegar áttunda umferð deildarinnar var leikin í dag.
Á sama tíma gerðu Grótta og Ægir jafntefli, 3:3, þannig að Þróttur er með 18 stig, Ægir 17, Grótta 15 og Haukar 14 stig í fjórum efstu sætum deildarinnar.
Jón Veigar Kristjánsson kom Þrótti yfir gegn Haukum á 3. mínútu og Auðun Gauti Auðunsson tryggði sigurinn með marki undir lokin, 2:0.
Björgvin Stefánsson bjargaði stigi fyrir Gróttu gegn Ægi á Seltjarnarnesi þegar hann jafnaði, 3:3, á fjórðu mínútu uppbótartíma. Ægismenn komust í 3:1 í síðari hálfleiknum en Jordan Adeyemo skoraði tvö mörk og Bjarki Rúnar Jónínuson eitt.
Kristófer Dan Þórðarson skoraði fyrsta mark Gróttu og Marciano Aziz minnkaði muninn í 3:2 áður en Björgvin jafnaði metin.
Dalvík/Reynir er í 5. sæti með 13 stig eftir heimasigur á KFG, 2:1. Sindri Sigurðarson og Martim Sequeira skoruðu fyrir Dalvík/Reyni í fyrri hálfleik en Djordje Biberdzic svaraði fyrir KFG í byrjun síðari hálfleiks.
Kormákur/Hvöt vann Víði 2:0 á Blönduósi og er með 12 stig í 6. sæti deildarinnar. Helistano Ciro og Abdelhadi Khalok skoruðu mörkin í fyrri hálfleik.
Kári komst úr fallsæti með sigri á KFA, 3:2, í Akraneshöllinni. Mikael Hrafn Helgason, Börkur Bernharð Sigmundsson og Marinó Hilmar Ásgeirsson skoruðu fyrir Kára og þeir Matheus Bissi og Marteinn Már Sverrisson fyrir KFA.
Höttur/Huginn vann sinn fyrsta leik, 2:1 gegn Víkingi frá Ólafsvík í Fellabæ. Þórhallur Ási Aðalsteinsson og Stefán Ómar Magnússon skoruðu fyrir Hött/Hugin en Kwame Quee fyrir Ólafsvíkinga.
Í neðri hluta deildarinnar eru Víkingur Ó. og Kári með 9 stig, KFA og Víðir með 8 stig, KFG með 7 stig og Höttur/Huginn er með 5 stig á botninum.