Þróttarar aftur á toppinn - Björgvin bjargaði Gróttu

Þróttarar fyrir leikinn gegn Haukum í Vogum í dag.
Þróttarar fyrir leikinn gegn Haukum í Vogum í dag. Ljósmynd/Þróttur

Þrótt­ar­ar úr Vog­um eru komn­ir á ný í efsta sæti 2. deild­ar karla eft­ir sig­ur á Hauk­um, 2:0, þegar átt­unda um­ferð deild­ar­inn­ar var leik­in í dag.

Á sama tíma gerðu Grótta og Ægir jafn­tefli, 3:3, þannig að Þrótt­ur er með 18 stig, Ægir 17, Grótta 15 og Hauk­ar 14 stig í fjór­um efstu sæt­um deild­ar­inn­ar.

Jón Veig­ar Kristjáns­son kom Þrótti yfir gegn Hauk­um á 3. mín­útu og Auðun Gauti Auðuns­son tryggði sig­ur­inn með marki und­ir lok­in, 2:0.

Björg­vin Stef­áns­son bjargaði stigi fyr­ir Gróttu gegn Ægi á Seltjarn­ar­nesi þegar hann jafnaði, 3:3, á fjórðu mín­útu upp­bót­ar­tíma. Ægis­menn komust í 3:1 í síðari hálfleikn­um en Jor­d­an Adeyemo skoraði tvö mörk og Bjarki Rún­ar Jón­ínu­son eitt. 

Kristó­fer Dan Þórðar­son skoraði fyrsta mark Gróttu og Marciano Aziz minnkaði mun­inn í 3:2 áður en Björg­vin jafnaði met­in.

Dal­vík/​Reyn­ir er í 5. sæti með 13 stig eft­ir heima­sig­ur á KFG, 2:1. Sindri Sig­urðar­son og Martim Sequ­eira skoruðu fyr­ir Dal­vík/​Reyni í fyrri hálfleik en Djor­dje Biber­dzic svaraði fyr­ir KFG í byrj­un síðari hálfleiks.

Kor­mák­ur/​Hvöt vann Víði 2:0 á Blönduósi og er með 12 stig í 6. sæti deild­ar­inn­ar. Hel­istano Ciro og Abdel­hadi Kha­lok skoruðu mörk­in í fyrri hálfleik.

Kári komst úr fallsæti með sigri á KFA, 3:2, í Akra­nes­höll­inni. Mika­el Hrafn Helga­son, Börk­ur Bern­h­arð Sig­munds­son og Marinó Hilm­ar Ásgeirs­son skoruðu fyr­ir Kára og þeir Mat­heus Bissi og Marteinn Már Sverris­son fyr­ir KFA.

Hött­ur/​Hug­inn vann sinn fyrsta leik, 2:1 gegn Vík­ingi frá Ólafs­vík í Fella­bæ. Þór­hall­ur Ási Aðal­steins­son og Stefán Ómar Magnús­son skoruðu fyr­ir Hött/​Hug­in en Kwame Quee fyr­ir Ólafs­vík­inga.

Í neðri hluta deild­ar­inn­ar eru Vík­ing­ur Ó. og Kári með 9 stig, KFA og Víðir með 8 stig, KFG með 7 stig og Hött­ur/​Hug­inn er með 5 stig á botn­in­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert