ÍBV vann sterkan sigur á HK, 5:2, í toppslag í 7. umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu í Kórnum í kvöld.
Með sigrinum fór ÍBV á toppinn þar sem liðið er með 16 stig líkt og Grindavík/Njarðvík sæti neðar en betri markatölu. HK er skammt undan í þriðja sæti með 15 stig.
Bandaríkjakonan Allison Clark braut ísinn á 28. mínútu með stórkostlegu vinstri fótar skoti fyrir utan vítateig sem söng uppi í samskeytunum hægra megin.
Skömmu fyrir leikhlé tvöfaldaði nafna hennar og landa Allison Lowrey forystu Eyjakvenna er hún slapp ein í gegn og lagði boltann snyrtilega í netið úr vítateignum.
Lowrey er markahæst í 1. deildinni en hún er komin með níu mörk í sjö leikjum á tímabilinu.
Staðan í leikhléi var 2:0 en snemma í síðari hálfleik, á 55. mínútu, bætti Olga Sevcova við þriðja marki ÍBV þegar hún slapp í gegn vinstra megin í vítateignum, lagði boltann í nærhornið og útlitið orðið ansi gott.
Það varð ennþá betra skömmu þremur mínútum síðar þegar fjórða markið leit dagsins ljós. Það skoraði Clark af stuttu færi eftir magnaðan undirbúning nöfnu sinnar Lowrey.
Var það sjötta mark Clark í sjö deildarleikjum í sumar.
Á 64. mínútu minnkaði Nathalie Wilson muninn fyrir HK þegar hún tók vel á móti fyrirgjöf í vítateignum og kom boltanum í netið.
Í uppbótartíma skoraði varamaðurinn María Lena Ásgeirsdóttir annað mark HK þegar hún fylgdi eftir skoti Lomu McNeese sem Guðný Geirsdóttir í marki ÍBV hafði varið.
Stuttu síðar kom hins vegar fimmta mark ÍBV sem hin 14 ára gamla Milena Mihaela Patru skoraði með glæsilegri afgreiðslu. Sá Milena til þess að Eyjakonur fóru með öruggan þriggja marka sigur af hólmi.
Þrátt fyrir afar ungan aldur er hún komin með fjögur mörk í fimm leikjum í deildinni til þessa.