ÍBV vann toppslaginn örugglega

Leikmenn ÍBV fagna marki í kvöld.
Leikmenn ÍBV fagna marki í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

ÍBV vann sterk­an sig­ur á HK, 5:2, í toppslag í 7. um­ferð 1. deild­ar kvenna í knatt­spyrnu í Kórn­um í kvöld.

Með sigr­in­um fór ÍBV á topp­inn þar sem liðið er með 16 stig líkt og Grinda­vík/​Njarðvík sæti neðar en betri marka­tölu. HK er skammt und­an í þriðja sæti með 15 stig.

Banda­ríkja­kon­an All­i­son Clark braut ís­inn á 28. mín­útu með stór­kost­legu vinstri fót­ar skoti fyr­ir utan víta­teig sem söng uppi í sam­skeyt­un­um hægra meg­in.

Skömmu fyr­ir leik­hlé tvö­faldaði nafna henn­ar og landa All­i­son Lowrey for­ystu Eyja­kvenna er hún slapp ein í gegn og lagði bolt­ann snyrti­lega í netið úr víta­teign­um.

Marka­hæst með níu mörk

Lowrey er marka­hæst í 1. deild­inni en hún er kom­in með níu mörk í sjö leikj­um á tíma­bil­inu.

Staðan í leik­hléi var 2:0 en snemma í síðari hálfleik, á 55. mín­útu, bætti Olga Sevcova við þriðja marki ÍBV þegar hún slapp í gegn vinstra meg­in í víta­teign­um, lagði bolt­ann í nær­hornið og út­litið orðið ansi gott.

Það varð ennþá betra skömmu þrem­ur mín­út­um síðar þegar fjórða markið leit dags­ins ljós. Það skoraði Clark af stuttu færi eft­ir magnaðan und­ir­bún­ing nöfnu sinn­ar Lowrey.

Var það sjötta mark Clark í sjö deild­ar­leikj­um í sum­ar.

14 ára inn­siglaði sig­ur­inn

Á 64. mín­útu minnkaði Nathalie Wil­son mun­inn fyr­ir HK þegar hún tók vel á móti fyr­ir­gjöf í víta­teign­um og kom bolt­an­um í netið.

Í upp­bót­ar­tíma skoraði varamaður­inn María Lena Ásgeirs­dótt­ir annað mark HK þegar hún fylgdi eft­ir skoti Lomu Mc­Neese sem Guðný Geirs­dótt­ir í marki ÍBV hafði varið.

Stuttu síðar kom hins veg­ar fimmta mark ÍBV sem hin 14 ára gamla Milena Mihaela Patru skoraði með glæsi­legri af­greiðslu. Sá Milena til þess að Eyja­kon­ur fóru með ör­ugg­an þriggja marka sig­ur af hólmi.

Þrátt fyr­ir afar ung­an ald­ur er hún kom­in með fjög­ur mörk í fimm leikj­um í deild­inni til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert