Fram varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í fótbolta er liðið gerði góða ferð til nágranna sinna í Aftureldingu og sigraði, 1:0.
Fram komst tvisvar nálægt því að skora á tveimur mínútum. Fyrst varði Jökull Andrésson glæsilega frá Vuk Oskari Dimitrijevic á 20. mínútu og síðan frá Simon Tibbling tveimur mínútum síðar.
Afturelding skapaði sér ekki mikið í fyrri hálfleik en Bjarni Páll Linnet Runólfsson var nálægt því að skora fyrsta mark leiksins á lokasekúndum hálfleiksins en hann skaut í varnarmann og í slána eftir sendingu frá Þórði Gunnari Hafþórssyni.
Var það síðasta færi fyrri hálfleiks og var því ekkert skorað fyrir hlé.
Jökull varði glæsilega í þriðja skipti á 48. mínútu þegar Kennie Chopart sendi í varnarmann og boltinn stefndi í hornið niðri en Jökull varði stórglæsilega.
Jökull kom hins vegar engum vörnum við á 68. mínútu þegar varamaðurinn Freyr Sigurðsson skoraði fyrsta mark leiksins með skalla af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf frá Vuk Oskari frá vinstri.
Lítið var um færi eftir markið en Framarar voru líklegri til að bæta við en Afturelding, en án árangurs. Leikmenn og stuðningsmenn Fram fögnuðu því sæti í undanúrslitum í leikslok.