Þróttarar aftur á toppinn

Mackenzie Smith og Álfhildur Rósa Kjartansdóttir í baráttunni í kvöld.
Mackenzie Smith og Álfhildur Rósa Kjartansdóttir í baráttunni í kvöld. mbl.is/Hákon

Þrótt­ur fór aft­ur upp í topp­sæti Bestu deild­ar kvenna í fót­bolta með útisigri á Fram, 3:1, í Reykja­vík­urslag í 10. um­ferðinni í kvöld. Þrótt­ur er nú með 25 stig, þrem­ur stig­um meira en Breiðablik og FH sem eiga leik til góða. Fram er í fimmta sæti með 15 stig.

Þrótt­ar­ar byrjuðu mun bet­ur og Jelena Tinna Kujundzic skoraði fyrsta markið á 5. mín­útu er hún potaði bolt­an­um yfir lín­una af nær engu færi eft­ir að Elaina LaMacchia markvörður Fram verði frá Þór­dísi Elvu Ágústs­dótt­ur.

Gest­irn­ir héldu áfram að sækja eft­ir markið og Unn­ur Dóra Bergs­dótt­ir tvö­faldaði for­skotið á 23. mín­útu með fal­leg­um skalla úr teign­um eft­ir horn­spyrnu frá Katie Cous­ins.

Þrótt­ur var lík­legri til að bæta í for­skotið en Fram að minnka mun­inn það sem eft­ir lifði fyrri hálfleiks en fleiri urðu mörk­in ekki og staðan í leik­hléi 2:0.

Seinni hálfleik­ur var mjög ró­leg­ur fram­an af en þriðja mark Þrótt­ar kom á 81. mín­útu þegar Þór­dís Elva Ágústs­dótt­ir skoraði með skoti í slá og inn eft­ir send­ingu frá Carol­ine Murray sem kom inn á stuttu fyrr.

Fram­ar­ar minnkuðu mun­inn fjór­um mín­út­um síðar þegar Sara Svan­hild­ur Jó­hanns­dótt­ir slapp ein í gegn eft­ir send­ingu frá LaMacchia markverði og skoraði af ör­yggi fram­hjá Mol­lee Swift í marki Þrótt­ar.

Fram 1:3 Þrótt­ur R. opna loka
Augna­blik — sæki gögn...
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert