Telma Ívarsdóttir lék sinn síðasta leik fyrir Breiðablik, allavega í bili, þegar liðið sigraði Stjörnuna, 3:0, í tíundu umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu í Garðabænum í dag.
Telma kom í byrjun maí á tveggja mánaða lánssamningi frá Rangers í Skotlandi. Hún kom með það markmið að koma sér í leikform fyrir Evrópumótið sem hefst í byrjun næsta mánaðar í Sviss.
Blikaliðið var sannfærandi í dag og er í toppsæti deildarinnar með 25 stig, jafnmörg og Þróttur R., en við tekur mánaðarpása vegna EM.
„Við nýttum þessi færi sem við fengum vel. Við vorum mikið í sókn og hefðum eflaust getað skorað meira, en stelpurnar fram á við kunna að klára færin sín og ég er gríðarlega ánægð með þær.“
Telma segir það hafa gefið sér mikið að koma heim og spila aftur með Blikum en hún gekk í raðir Rangers eftir síðasta tímabil og var varamarkvörður hjá liðinu til að byrja með.
„Þetta gerði helling fyrir mig, sérstaklega fyrir sjálfstraustið. Þú þarft að spila til að fá sjálfstraust. Þetta hjálpaði mjög mikið, sérstaklega með stórmót fram undan.
Mér er búið að líða mjög vel hérna og það er alltaf frábært að spila með Breiðabliki. Ég verð að viðurkenna að það er frekar sárt að vera að fara en ég er að fara á stórmót og get því ekki kvartað mikið.
Ég er gríðarlega spennt fyrir framhaldinu og vonandi kemur þetta hjá mér þarna úti,“ sagði Telma.
„Ég er mjög spennt að fylgjast með þeim heima í sófa og hef fulla trú á þeim. Ég vona að þær vinni þessa deild og haldi bikarnum heima,“ bætti Telma við spurð út í hvernig það verður að fylgjast með Blikaliðinu út tímabilið.
Telma er einn af þremur markvörðum Íslands sem fara á EM en hópurinn fer út eftir tvo daga.
„Það styttist og styttist. Ég er gríðarlega spennt. Við förum út í góða veðri eftir tvo daga og verður áhugavert að sjá hvernig þetta verður.
Við byrjum í Serbíu og ég er mjög spennt að hitta hópinn og vera með honum. Þetta verður langur tími og við ætlum okkur upp úr þessum riðli og að vera úti í langan tíma,“ bætti Telma við í samtali við mbl.is.