Frekar sárt að vera að fara

Telma Ívarsdóttir.
Telma Ívarsdóttir. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Telma Ívars­dótt­ir lék sinn síðasta leik fyr­ir Breiðablik, alla­vega í bili, þegar liðið sigraði Stjörn­una, 3:0, í tí­undu um­ferð Bestu deild­ar­inn­ar í knatt­spyrnu í Garðabæn­um í dag.

Telma kom í byrj­un maí á tveggja mánaða láns­samn­ingi frá Ran­gers í Skotlandi. Hún kom með það mark­mið að koma sér í leik­form fyr­ir Evr­ópu­mótið sem hefst í byrj­un næsta mánaðar í Sviss.

Blikaliðið var sann­fær­andi í dag og er í topp­sæti deild­ar­inn­ar með 25 stig, jafn­mörg og Þrótt­ur R., en við tek­ur mánaðarpása vegna EM.

„Við nýtt­um þessi færi sem við feng­um vel. Við vor­um mikið í sókn og hefðum ef­laust getað skorað meira, en stelp­urn­ar fram á við kunna að klára fær­in sín og ég er gríðarlega ánægð með þær.“

Þarft að spila til að fá sjálfs­traust

Telma seg­ir það hafa gefið sér mikið að koma heim og spila aft­ur með Blik­um en hún gekk í raðir Ran­gers eft­ir síðasta tíma­bil og var vara­markvörður hjá liðinu til að byrja með.

„Þetta gerði hell­ing fyr­ir mig, sér­stak­lega fyr­ir sjálfs­traustið. Þú þarft að spila til að fá sjálfs­traust. Þetta hjálpaði mjög mikið, sér­stak­lega með stór­mót fram und­an. 

Mér er búið að líða mjög vel hérna og það er alltaf frá­bært að spila með Breiðabliki. Ég verð að viður­kenna að það er frek­ar sárt að vera að fara en ég er að fara á stór­mót og get því ekki kvartað mikið. 

Ég er gríðarlega spennt fyr­ir fram­hald­inu og von­andi kem­ur þetta hjá mér þarna úti,“ sagði Telma. 

„Ég er mjög spennt að fylgj­ast með þeim heima í sófa og hef fulla trú á þeim. Ég vona að þær vinni þessa deild og haldi bik­arn­um heima,“ bætti Telma við spurð út í hvernig það verður að fylgj­ast með Blikaliðinu út tíma­bilið. 

Telma er einn af þrem­ur markvörðum Íslands sem fara á EM en hóp­ur­inn fer út eft­ir tvo daga.  

„Það stytt­ist og stytt­ist. Ég er gríðarlega spennt. Við för­um út í góða veðri eft­ir tvo daga og verður áhuga­vert að sjá hvernig þetta verður. 

Við byrj­um í Serbíu og ég er mjög spennt að hitta hóp­inn og vera með hon­um. Þetta verður lang­ur tími og við ætl­um okk­ur upp úr þess­um riðli og að vera úti í lang­an tíma,“ bætti Telma við í sam­tali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert